Melbourne

Wednesday, July 26, 2006

Picnic at Hanging Rock

Hah! Ætlaði að fara að blogga um síðustu helgi þegar ég fattaði að ég hef enn ekki sagt ykkur frá helginni þar á undan, engin frammistaða í þessum bloggheimi! Fórum í Crown á laugardeginum með samstarfskonu Marons og hennar börnum. Skelltum okkur í keilu og út að borða á eftir. Mjög gaman og krakkarnir voða ánægðir, enda leikurinn til þess gerður.

Fórum svo í sund á sunnudeginum. Eftir fríið á Íslandi er maður auðvitað enn og aftur orðinn gerspilltur í sundmálum og finnst þessar laugar sem boðið er upp á hér ekki upp á marga fiska. Sérstaklega er búningsaðstaðan fyrir neðan allar hellur, eins og oft vill gerast í útlöndum. Ég hef svo sem farið nokkrum sinnum áður í þessa laug og lengi talið hana með því skásta sem ég hef séð hér en nú er búið að minnka kvennaklefann um helming, einhverra hluta vegna, og álagið því helmingi meira en áður. En hey, lítum á björtu hliðarnar... klefinn var svo skítugur að sveppir þrífast þar varla.. og ef þeir gera það þá munu maurarnir örugglega éta þá áður en þeir bíta mig í tærnar!

Vikan leið svo eins og gengur og gerist með sínum föstu siðum; Maron í vinnu og daman í skóla. Ég veit ekki alveg hvað ég var að gera.. mér leiddist alla veganna ekki. Ég byrja svo í skólanum í september... þá verður líklega nóg að gera hjá mér líka :o)

Áttum svo aftur mátulega rólega og góða helgi. Fórum í leiðangur á laugardaginn og keyptum okkur "Cross Trainer". Fyrst við erum ekki að fara í ræktina, hjónin, er spurning hvort að ræktin komi ekki bara til okkar! Svo nú er nýjasta stofustássið sem sagt eitt stykki svona skíðatæki sem eiga víst best heima á líkamræktarstöðvum... en svo lengi sem við erum að sveifla okkur á þessu er víst ekki hægt að kvarta, er það??

Finnarnir okkar buðu okkur í mat á laugardagskvöldið og það var gaman og huggulegt að vanda. Erum búin að bóka skíðaferð með þeim um miðjan ágúst svo við vorum aðeins að pæla og plana frekar. Ætlum að vera saman í fjögurra herbergja hótelíbúð í þrjár nætur í áströlsku Ölpunum. Stelpurnar ætla saman í skíðaskóla og við hin ætlum að gera heiðarlega tilraun til að skella okkur á skíði.. og ef mín er hugrökk.. á snjóbrettið!

Skelltum okkur svo í "picnick at Hanging Rock" (sbr. fræga ástralska skáldsögu og kvikmynd fyrir þá sem vilja kynna sér frekar ástralska menningu) á sunnudaginn. Þetta var hin allra besta skemmtun í yndislegu veðri. Sátum og nutum nestisins með kengúrur og rósellur í kringum okkur. Thelma Kristín komst meira að segja í návígi við lítinn sætan "joey" (ef einhver veit hvað afkvæmi kengúru heitir á íslensku eru slíkar upplýsingar vel þegnar). Löbbuðum svo upp á fjallið eftir matinn, mættum kóalabirni á leiðinni og frábæru útsýni þegar upp kom. Ég er eiginlega doldið hissa á að hafa ekki fundið meiri tröllasögur í ástralskri þjóðtrú því aldrei fyrr hef ég séð jafnmörg steingerð tröll og í þessari göngu. Kannski er þessar sögur að finna í þjóðsögum frumbyggjanna, best að kynna sér málið. Er annars búin að setja inn myndir af dagsferðinni - þær segja meira en mörg orð.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter