Melbourne

Sunday, March 26, 2006

Larry, Samveldisleikar og Djamm!

Jæja, þá er fyrsta skólaleyfið á enda og alvaran tekur við í fyrramálið. Höfum haft það ansi náðugt mæðgurnar enda hefur Maron verið á hvolfi í vinnunni og lítið sést heima við.

Höfum haft reglulega gaman af að rölta um bæinn á meðan Samveldisleikarnir hafa staðið yfir. Ég hef aldrei séð Melbourne iða af jafn miklu lífi og undanfarið. Alls staðar eru svið og risaskjáir sem bjóða upp á hina ýmsu skemmtun og mannhafið er svo mikið að það þarf sérþjálfaðan mannskap til að stjórna "umferðinni".

Hef nú lítið fylgst með íþróttahliðinni af þessu öllu. Veit þó að Ástralir eru að rúlla upp mótinu með LANGflest verðlaunin. Þeir eru að rifna úr stolti yfir þessu öllu en með fullri virðingu, þá er meiri hluti keppanda frá þjóðum sem ekki meika það á smáþjóðaleikana svo ég veit ekki alveg hversu mikilfengleg þessi íþróttaafrek eru. Þó hafa verið sett einhver heimsmet í sundi og ekki má gleyma því að hér eru örfáar stórar þjóðir að keppa s.s. Indland, Kanada og Bretland (í mörgum pörtum þó, England, Skotland o.s.frv.)

Fellibylurinn Larry hljóp yfir Norð-austur strönd Ástralíu í vikunni, af meiri krafi en Katrín gerði í USA í fyrra. Einskær heppni að enginn skuli hafa látið lífið en eyðileggingin er mikil á þeim stöðum sem urðu verst úti og margir hafa misst allt sitt. Hér á suðurhliðinni fundum við lítið fyrir látunum, munum helst verða vör við áhrifin í hækkuðu verði á bönunum enda eyðilagðist meiri hluti bananaakra Ástrala.

Í gærkvöldi var svo U2 kvöldið góða! Áttum bókaða miða með margra mánaða fyrirvara en tónleikunum var frestað eftir að Bono var mættur til landsins með allt gengið. Sagan segir að 7 ára dóttir The Edge sé alvarlega veik og því var öllu showinu frestað fram í nóvember. Vonum að þetta fari allt vel. Miðarnir eru vel geymdir hér í skúffunni hjá okkur.. og við eigum auka miða fyrir þá sem vilja ferðast hingað í nóvember!

Við höfðum bókað barnapíu í samráði við finnsku vini okkar fyrir löngu síðan og ákváðum að láta U2 ekki stoppa okkur í því að kíkja út á lífið. Fórum út að borða á Crown Entertainment Complex á mjög huggulegan stað. Hættum okkur því miður út úr húsi á eftir í von um að geta sest inn á einhvern huggulegan pöbb í bænum en það hefðum við ekki átt að gera því mannhafið var slíkt á götum borgarinnar að erfitt var að komast leiðar sinnar, hvað þá fá sæti á barnum!

Enduðum á local pöbbnum okkar þar sem nokkrar hræður sátu og skemmtu sér. Barþjónninn var meira að segja svo elskulegur að bjóða okkur upp á sterkari efni en áfengið, fannst það nú ekki mikið mál - og brosti bara góðlátlega þegar við afþökkuðum pent. Greinilega afkastameiri bar hér á horninu hjá okkur en ég gerði mér grein fyrir!

Sátum svo í garðinum hjá finnsku vinum okkar fram eftir nóttu. Thelma Kristín fékk að gista þar í nótt svo við vorum aftur mætt til þeirra í morgunsárið til að sækja þá stuttu. Sátum þar í morgunkaffi ásamt kunningjum þeirra sem höfðu ætlað með okkur út í gærkveldi en ekki komist og skemmtum okkur konunglega. Mjög hresst og skemmtilegt par sem við vonumst til að hitta aftur sem fyrst.

..og nú sit ég hér inni í 30 gráðu hita og hangi í tölvunni... nóg komið af hinu góða, best að drífa barnið út í hjólatúr.

3 Comments:

  • Jahá það hefur greinilega verið margt að gerast hjá ykkur sértstaklega þegar þessar rosalegu raðir voru á götunum og maður gat bara farið yfir á nokkrum stöðum. Ég myndi ekki vilja lenda í því hér heima. Hlakka til að sjá ykkur bara 9 daga bið eftir :D
    Kristófer

    By Anonymous Anonymous, at 4:13 AM  

  • Þið megið alveg kíkja á bloggið mitt en ég ætla að blogga á meðan ég er þarna úti hjá ykkur slóðin er www.blog.central.is/astralia-
    Hlakka til að sjá ykkur :D
    Kristófer

    By Anonymous Anonymous, at 4:17 AM  

  • Það þarf einhver að fara með á U2 PANT!!! Og Halldór er lika til, ef það er til auka miði?

    By Anonymous Anonymous, at 5:41 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter