Melbourne

Friday, March 03, 2006

Karlmannslaus í kulda og trekki....

Sit hér ein í yfir 30 gráðu hita og rafmagnsleysi.. lengi lifi batteríið í fartölvunni! Veit eiginlega ekki af hverju rafmagnið fór því þrátt fyrir blauta veðurspá hefur enn ekki komið dropi úr lofti, hvað þá þruma eða elding. En nágrannarnir lifa í sama myrkrinu og ég og því lítið fyrir mig að gera í málinu í bili.

Höfum annars haft það fínt mæðgurnar í einverunni. Maron er búinn að vera í Chile í tæpar tvær vikur og von á honum heim á föstudag. Þrátt fyrir ævintýri bóndans höfum við Thelma Kristín lifað ansi hversdagslegu lífi. Daman er farin að mæta í skólann 5 daga í viku (smá misskilningur í mömmunni um að hún yrði 4 daga alla fyrstu önnina.. wishfull thinking!) og því ríkir óvenju mikil regla og rútína á heimilinu þessa dagana. Reyndar lauk fyrstu önninni nú á föstudag og tveggja vikna frí framundan. Helgin er ekki liðin og sú stutta er strax farin að spyrja hvenær hún fari í skólann, stynur þungan og segist sakna Thess (kennarans)!!

Hef tvö undanfarin miðvikudagskvöld sótt námskeið í skólanum til þess að verða s.k. “classroom helper”. Hér lifa skólarnir á sjálfboðastarfi og almennum fjáröflunum. Þeir foreldrar sem hafa tök á, mæta í skólann ca 2 tíma á viku og hjálpa kennaranum í kennslustofunni. Flestir foreldrar borga bæði efnisgjald og “frjálst framlag” til skólanna og í hverjum mánuði er haldinn markaður á skólalóðinni sem fjáröflun fyrir skólann. Þá eru enn ónefnd ótal önnur störf við skólann sem unnin eru af foreldrum í sjálfboðavinnu, t.d. að vinna í búðinni sem selur skólabúninga, lóðafrágangur, aðstoð við gerð námsefnis og svo mætti lengi telja. Í raun myndi skólastarf hér ekki ganga upp án fjárhagsaðstoðar og vinnuframlags foreldranna. Held það myndi nú heyrast hljóð í íslenskum foreldrum ef ástandið væri svona á Íslandi!

En í skólaleyfinu iðar Melbourne af lífi. Íþróttamenn teknir að streyma til borgarinnar vegna Samveldisleikanna sem hér verða settir á miðvikudag. Undirbúningur hefur verið gríðarlega strangur undanfarna vikur og mánuði.... jah, í raun hefur um lítið annað verið rætt síðan við fluttum hingað fyrir ári síðan! (Haleluja.. nú kom rafmagnið) Herþotur og þyrlur sveima yfir hverfinu okkar og fólk sem vinnur í borginni má eiga von á því að erfitt verði að komast til og frá vinnu á meðan leikarnir standa. Íþróttafólkið tekur lífinu með mátulegri ró og sitt sýnist hverjum; Kanadamenn hafa pantað loftkælingu í íbúðir sínar á meðan liðið frá Fiji eyjum heimtar hita element. (Þar fór rafmagnið aftur!)

Við Thelma Kristín fórum í bæinn um síðustu helgi og skelltum okkur á sædýrasafnið. Á leiðinni þangað gengum við eftir Soutbank Prominade, fram hjá frægum gosbrunni hér í borg sem er þannig gerður að í gangstéttinni eru ansi mörg göt og upp um þau sprautast vatn í ákveðnu (en þó ansi óútreiknanlegu) mynstri. Í nærri 30 stiga hita hoppuðu borgarbörnin auðvitað þarna um og ég hafði það ekki í mér að neita Thelmu Kristínu um fjörið þrátt fyrir að engin varaklæðnaður væri með í för. Daman fór þó úr skónum og bolnum og stökk í leikinn. Ofsalega var þetta skemmtilegt í sólinni, krakkarnir réðu sér ekki fyrir kæti en mikið var dóttir mín líka blaut á eftir! Til allrar lukku var hún í pilsi og því hægt að klæða hana úr því og nærbuxunum.. sitt í hvoru lagi.. og vinda vel, en allan tíman á loftkældu sædýrasafninu var barnið í rennblautum fötum, verð að viðurkenna að mamman var nú með nettan móral.

Haustið hefur lítið látið kræla á sér. Hjóluðum á ströndina í gær í yfir 30 gráðu hita en í dag flúðum með vinum okkar á “innileikvöll” í 36 gráðum. Eins ljúft og það er að liggja við sundlaugabakka með kokteil í hönd í slíkum hita er nær ógerningur að hlaupa á eftir krökkunum á róló í þessari mollu og almennt frekar óþægilegt að athafna sig í daglegu lífi. Ég kvarta nú samt ekki því við erum með loftkælingu hjá okkur og það eru forréttindi sem ansi margir eru án hér.

Jæja, rafmagnið komið á aftur (vonandi til að vera í þetta sinn) og hægt að snúa sér aftur að .. tatarata...sjónvarpinu. Betri tíð með blóm í haga framundan, 5 dagar í húsbóndann og svo styttist óðum í að Kristófer og mamma og pabbi kíki í heimsókn, þá verður sko fjör í kotinu.

1 Comments:

  • Eftir að hafa búið í Kanada, Bretlandi og Ástralíu er hreimurinn minn orðinn algerlega úník og óskilgreinanlegur! Thelma Kristín er hins vegar að breytast í sannan Aussie. Meira segja Ástralinn glottir út í annað þegar hún talar og hefur orð á hreimnum hjá henni. Við veljum alltaf að flytja á ystu nöf hvað varðar mállýskur... í Svíþjóð talaði barnið hræðilega skánsku og nú Aussie!!

    By Blogger Unnur Gyda Magnusdottir, at 8:38 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter