Melbourne

Tuesday, March 14, 2006

Margmenningin í allri sinni dýrð

Fórum að sjá hina árlegu Moomba skrúðgöngu í gær. Þvílík fjölbreytni, þvílík mannlífsflóra; Íþróttahetjur, kínverskir drekar, löggur, lúðrasveitir, spænskar senjorítur, leikarar, fimleikafólk, indverjar, brimbrettakappar, sjúkraflutningamenn, gleði, frumbyggjar, litir, barnastjörnur, dansarar frá Tonga, fuglar, fígúrur, bændur, indónesar, taikvondó, þjóðdansar, sendiráð, eldri borgarar, slökkviliðsmenn, tónlist, suður-amerískt salsa, línudansar... á ég að halda áfram? Melbourne í hnotskurn!

Þvílíkt líf í borginni þessa dagana. Allt að verða vitlaust í undanfara Samveldisleikanna. Mætti halda að hér ætti að segja Olympíuleika á morgun, slík er spennan. Einn og einn hugaður blaðaritari hefur vogað sér að kalla leikana sínu rétta nafni... annars flokks íþróttaviðburð... en sá hinn sami er fljótt púaður niður.

En er ekki um að gera að fljóta bara með straumnum og njóta vel... 50 ár síðan hér voru haldnir Ólympíuleikar hvort eð er? Leikar sem eru Íslendingum í fersku minni enda kom Vilhjálmur Einarsson heim með silfur, man það eins og gerst hafi í gær?! Setningarhátíðin verður annað kvöld og þó við eigum nú ekki miða á athöfnina fer hluti hennar fram úti fyrir leikvellinum, á Yarra ánni hér í borg, og er gert ráð fyrir að um 600 þúsund Ástralir muni gera sér ferð í bæinn til að fylgjast með. Spurningin er bara, á ég að drífa mig með dömuna í fjörið... sem er líklega eitthvað sem maður mun aldrei upplifa aftur... eða horfa á athöfnina í öruggum stofusófanum?? Get ekki ákveðið mig - hvað mynduð þið gera?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter