Melbourne

Tuesday, April 12, 2005

Allt og ekkert

Hæ aftur

Ég verð nú að viðurkenna að ég er með nettan móral yfir bloggleti síðustu daga og vikna. En reyndar hefur bara ekki svo margt á daga okkar drifið að það hafi tekið því að setjast niður og blogga. Ég er samt að hugsa um að fara að vera með skrifblokk á mér og skrifa niður hugmyndir að bloggi þegar þær skjótast inn í kollinn á mér því þær eru svo skrambi fljótar að hlaupa út aftur - fullt af skondnum og sniðugum punktum sem verða á vegi manns á degi hverjum en svo eru þeir týndir og tröllum gefnir þegar ég sest við tölvuna!

Veðrið hefur verið alveg geggjað undanfarnar vikur. Ástralarnir hrista bara hausinn á meðan hvert hitametið á fætur öðru er slegið. Eftir ömurlegt sumar hefur veðrið í haust verið alveg frábært - hitinn alltaf á milli 23 og 33 gráður yfir daginn og varla komið rigningardropi síðan við komum til landsins. Loksins kom sem sagt sumarið til Melbourne!

En nóg af innantómu bulli - komum okkur að efninun. Eins og áður sagði hefur ekki margt gerst í okkar lífi undanfarnar vikur - bara þetta venjulega; éta, sofa vinna! Thelma Kristín er ofsalega ánægð á leikskólanum. Hún er búin að eignast bestu vinkonu sem heitir Vanessa. Sem betur fer er hún bara á leikskólanum með Thelmu á miðvikudögum því þær eru algerlega óaðskiljanlegar - mér skilst á starfsfólkinu að Vanessa dragi Thelmu Kristínu með sér eins og hún væri taskan hennar! Það var bara grátur og gnístan tanna þegar þær voru sóttar á miðvikudaginn svo mikil var sorgin yfir aðskilnaðinum. En við mömmurnar erum búnar að skiptast á símanúmerum og erum tilbúnar í "playdate" þegar skólafríið er búið.

Síðustu viku og þessa hefur verið frí í öllum grunnskólum. Ég held að skólaárið sé byggt upp þannig hér að börn séu í skólanum í 6 vikur og svo sé frí í tvær vikur. Ég hef sko afskaplega öruggar heimildir fyrir þessu eins og flestu sem fram fer í Melbourne - þetta var nefnilega svona í Nágrönnum! Eins gott maður fylgdist með Grönnum í 10 ár - þvílík æfing fyrir komandi átök!!

Við familían fórum í bólusetningu nr. 2 við lifrarbólgu B á föstudaginn fyrir rúmri viku. Maður þarf að fara í 3 með ákveðnu millibili og svo er maður góður í 10 ár. Við hringdum í læknamiðstöð hér nálægt og pöntuðum tíma. Brostum nú út í annað þegar við mættum á staðinn því þetta er greinilega læknastöð gyðinga hér í hverfinu. Læknirinn tók á móti okkur, með kolluna og allt, dældi í okkur bóluefni og rukkaði svo þrefalt komugjald plús bóluefnið - með réttu hefðum við getað setið hjá honum í 45 mínútur (3x15 mín.) Sorry fordómana í mannfræðingnum - en þvílíkur gyðingur!

Bóluefnið fór nú ekki betur en svo í húsbóndann að hann lá steinflatur alla helgina á eftir og var í raun langt fram eftir vikunni að jafna sig. Það er kannski ekki síst þess vegna sem lítið blogghæft hefur gerst undanfarið. En karlinn er nú kominn á ról og við erum á fullu við að bæta upp tíðindalitla daga.

Ótrúlegt hvað sú stutta er nægjusöm og dugleg að dunda sér hér heima við þegar lítið er að gera. Hún hefur verið ótrúlega iðin við að hugsa um hundana sína fjóra - fjóra "hundabangsa" sem hún á og hefur lengi haldið því fram að séu sprelllifandi. Foreldrunum var nú hætt að standa á sama á þessu hundastandi og ég nefndi það við Maron að það væri skrítið að hún léki sér svona mikið með hundana en nær ekkert með dúkkurnar sínar - það er ekki eins og við séum miklir dýravinir. En nú er öldin önnur og daman sér ekkert nema dúkkurnar sínar tvær; Ingibjörgu og Heklu. Hún harðneitar hins vegar að vera mamma þeirra - segir að þær séu systur sínar og að við Maron eigum nú þrjár stelpur. Þetta hefur orðið til þess að ég fæ dúkkur í fangið í tíma og ótíma með skipunum um að hugsa um barnið mitt, dúkkurúmið er staðsett við hliðina á MÍNU rúmi enda vill Ingibjörg sofa hjá mömmu sinni og Thelma segir hverjum sem heyra vill að hún sé orðin stóra systir! Svo ef þið heyrið orðróm um að það hafi fjölgað í familíunni þá er þetta skýringin!

Eftir tíðindalitla viku fórum við í risabíltúr á laugardaginn. Að þessu sinni var ferðinni heitið niður Great Ocean Road sem liggur meðfram ströndinni vestan af Melbourne. Þetta er með hrikalegri vegum landsins en landslagið gerir ferðina þess virði. Framan af keyrir maður meðfram "Surf Coast" þar sem strendurnar eru með bestu brimbrettaströndum Ástrala og seinni hlutann keyrir maður svo meðfram "Shipwreck Coast" með háum klettadröngum sem eru að klofna í sjó fram - líkt og við Vík í Mýrdal. Eftir um klukkutíma bíltúr út úr borginni fengum við okkur hádegismat í bæ sem heitir Anglesea. Bærinn er einna frægastur fyrir golfvöllinn sem þar er því þar rölta kengúrur óáreittar með golfurunum um græna grasbala. Við slepptum golfinu í þetta sinn og pöntuðum okkur focaccia á hugglegum veitingastað inni í bænum. Þegar við komum inn var setið á einu borði en þrátt fyrir það tók það 35 mínútur að búa til samlokurnar - eins gott við pöntuðum ekki lambaskankana! Sem betur fer bragðaðist maturinn vel og við héldum ferðinni áfram niður þann kræklóttasta veg sem ég hef nokkru sinni farið - og taldi ég þó að við Íslendingar værum ýmsu vön í þessum efnum. Við keyrðum reyndar fram á ljótt bílslys þar sem móturhjól hafði keyrt utan í bíl. Móturhjólakappinn lá í götunni með opið beinbrot og ég verð að segja að maginn á manni sneri öfugt í nokkurn tíma eftir að hafa horft á þetta. En sjúkrabílinn var nýkominn á staðinn og maðurinn í góðum höndum, vonandi að hann hafi sloppið með eitt fótbrot.

Við keyrðum svo sem leið lá eftir Great Ocean Road og skoðuðum "the 12 Apostles", 12 klettadranga sem liggja við ströndina - mjög tilkomumikið. Gengum líka niður á strönd sem lá inni í lítilli klettavík. Það var með fallegri stöðum sem ég hef séð - alveg ótrúlega magnað. Þar settumst við niður með teppið góða og borðuðum nesti. Thelma Kristín er nefnilega svo hrifin af pick-nick tösku sem við fengum gefins eftir að hafa eitt aleigunni í raftækjabúð hér í nágrenninu. Það er mest spennandi í heimi að fara með nesti - þó ekki sé nema út í "park" og sitja á teppi í sólinni - Lítið er ungs manns gaman!

Heimleiðin lá svo aðeins fyrir norðan Great Ocean Road, að miklu leyti í gegnum regnskóg - og eftir einn góðan borgara á KFC komum við svo heim þegar leið á kvöldið eftir vel heppnaða ferð.

Áttum svo von á nágrönnum okkar í bjór á sunnudagseftirmiðdag en því miður varð ekkert úr því. Þó varð þetta til þess að við hengdum upp myndir og gerðum ýmislegt sem við áttum eftir að gera í íbúðinni - besta mál.

Á morgun er svo ferðinni heitið á Sunshine Coast, norðan við Brisbane. Maron er að fara að vinna þar í Mooloolaba (ég hélt hann væri að grínast þegar hann sagði mér nafnið á bænum!) á fimmtudag og föstudag svo við mæðgur ætlum að skella okkur með og sleikja sólina á meðan hann vinnur og svo verður hann með okkur um helgina - ekki amarlegt! Ég kem því með margar nýjar (og vonandi skemmtilegar) sögur eftir helgina. Lofa líka nýjum myndum þá.

Best að fara að pakka niður bikiníinu - heyrumst fljótt aftur.

Afmæliskveðjur til Ásu og Ágústs Mána - til hamingju með daginn á morgun. Ása - ég fæ mér Pina Colada á ströndinni á morgun - þér til heiðurs!

Sólarkveðjur
Unnur

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter