Melbourne

Tuesday, April 19, 2005

Mooloolaba

Hæ hæ

Áttum yndislega langa helgi í Mooloolaba á Sunshine Coast, norðan við Brisbane. Eiginlega er hér um að ræða áströlsku riveríuna; hótel, strendur, veitingastaðir og sól, sól, sól.

Flugum norður á miðvikudagskvöldi og Maron var að vinna á fimmtudeginum og föstudeginum á meðan við mæðgur svömluðum í hótelsundlauginni. Veðurspáin var reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir - rigning, rigning, rigning enda monsúntímabilið nýhafið. En sem betur fer varð lítið úr regninu og sólin skein á okkur næstum allan tímann.

Við mæðgur tókum því sem sagt rólega fyrstu tvo dagana. Lágum í sólbaði eftir því sem veður leyfði. Sú stutta var orðin ansi dugleg í sundlauginni, svamlaði um djúpu laugina með handakútana sína og synti fínasta hundasund. Vildi helst halda kúlinu og harðbannaði mömmunni að koma út í - enda fyrsta fólkið sem hún mætti í lauginni flugsyndir jafnaldrar svo nú var um að gera að standa sig.

Á fimmtudagskvöldinu fórum við út að borða á mjög huggulegan ítalskan veitingastað. Fengum rosalega góðar pizzur - við sem vorum næstum búin að missa trúna á að Ástralir gætu búið til pizzur eftir að hafa tvisvar pantað heim í Melbourne með arfaslökum árangri en eftir þessa ferð jókst trú okkar á andfætlingana og við sannfærðumst um að hér væri hægt að fá góðar pizzur - ibland alla veganna.

Byrjuðum laugardaginn á sundspretti enda var Thelma Kristín óþolinmóð að sína pabba sínum hversu dugleg hún væri í lauginni. Röltum síðan niður í bæ, sýndum pabba drekana (stórar eðlur) sem bjuggu undir runnunum við hótelið, fengum okkur samlokur og enduðum svo á ströndinni. Ströndin í Mooloolaba er mjög sérstök, stór partur af fjöruborðinu er klöpp sem gaman er að rölta eftir og dýfa tánum í pollana sem myndast á milli klettanna. Sjórinn var mjög hlýr og notarlegur, öldurnar í stærra lagi og sandurinn svo mjúkur að það brakaði í honum við hvert fótspor eins og maður gengi í kartöflumjöli! Fórum svo heim á hótel og sturtuðum okkur eftir góðan dag. Lágum í leti í sófanum og vorum alveg að gugna á því að fara út að borða þegar bankað var á dyrnar á herberginu okkar - hmmm.... við litum hvort á annað og ég fór til dyra. Fyrir utan stóðu tveir fílefldir slökkviliðsmenn og ein kona sem sögðu að brunakerfið hefði farið í gang á þessu herbergi!!! Bíddu - við vorum að horfa á sjónvarpið! Við gátum nú frætt fólkið um það að nágrannar okkar væru líklega valdir að brunanum enda hefði dýrindis steikingarbræla borist inn um loftræstinguna fyrir nokkrum mínútum. Mér skildist að hersingin hefði þegar farið í heimsókn til nágrannans því annar slökkviliðsmannanna brosti bara og sagði - já, þau voru að elda. Alla veganna kom ekkert út úr þessari heimsókn - gæti verið að það hafi verið nóg að við fórum í sturtu öll þrjú í röð og gufan hafi sett kerfið í gang - já eða nágranninn! Eftir þessa heimsókn vorum við þó orðin nógu vakandi til að rífa okkur upp á afturendanum og koma okkur út úr húsi.

Ákváðum að gera vel við okkur svona á laugardagskvöldi og fórum á frekar fínan veitingastað. Maron pantaði sér blandaða sjávarrétti og ég pantaði mér einhvern fisk (eye fillet) sem ég vissi nú ekki alveg af hvaða meiði var en hann var vafinn inn í parmaskinku með hálfsólþurrkuðum tómötum .. og.. hljómaði alla veganna mjög vel og gikkurinn ég sem aldrei panta fisk ákvað að láta slag standa. Við slógum enn um okkur og ég stóð fyrir því að pöntuð var hvítvínsflaska með matnum. Sátum svo í rólegheitum og sötruðum hvítvín þegar maturinn kom. Maron fékk rosalega girnilega sjávarrétti og ég fékk.... nautasteik!!! Enskukunnáttann ekki upp á fleiri fiska en þetta - þetta var bara venjulegt fillet - nautafillet. Maturinn var rosalega góður, það er ekki það - en mikið óskaplega langaði mig að kyngja steikinni niður með góðu RAUÐvíni! En ég kvarta ekki - þetta var alveg frábær matur - og ekki spilltu eftirréttirnir fyrir. Fórum sem sagt södd og glöð heim þetta kvöld.

Á sunnudeginum þurftum við að skila herberginu okkar klukkan 10 en áttum ekki flug heim fyrr en um kvöldið. Við ákváðum því að fara í "Underwater World" - sædýrasafnið i Mooloolaba. Það var ofsalega gaman og safnið glæsilegt í alla staði. Sérstaklega gaman að skoða fiskana sem eiga heima úti í kóralrifinu mikla því sú stutta þekkti þá alla með nafni; Marel, Dóra, Nemó... (!!) Sáum líka skemmtilega sýningu með selunum á safninu - sem endaði með því að einum áhorfandanum var hent út í laugina með selunum! En upp úr stóð samt risafiskabúr með fullt fullt af alls kyns fiskum, litlum og stórum... og risastórum... og hákörlum. Áhorfendur runnu svo í gegnum búrið á færibandi og manni leið bara eins og maður væri kominn í kafarabúning. Fyrir rétta upphæð var meira að segja hægt að fara ofan í búrið í kafarabúning og synda með hákörlunum. Gallinn var bara sá að um leið og viðkomandi var kominn ofan í búrið varð hann/hún automatiskt eitt stærsta sýningadýrið í búrinu. Alla veganna sagði Thelma Kristín að það hafi verið skemmtilegast að skoða hákarlana.. og kafarana!

Röltum svo um bæinn það sem eftir lifði dags þar til tími var kominn að fara út á flugvöll og þaðan heim í heiðardalinn. Haustið kom í Melbourne á meðan við vorum fyrir norðan - hitinn datt undir 20 gráður - brrrr!!! Daman fór svo á leikskólann í gær og allt gengur sinn vanagang. Maron fer bráðum heim til Íslands en við vitum enn ekki hvenær - við mæðgur þökkum fyrir hvern auka dag sem við höfum hann hér. Set inn myndir í dag eða á morgun. Bið að heilsa...

kveðja
Unnur

1 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter