Melbourne

Wednesday, February 06, 2013

"Mamma, af hverju fengum við hús með engum veggjum?"

Úha! Talandi um að upplifa tvær ólíkar hliðar á Bali. Erum komin í villu hér úti á miðjum hrísgrjónaökrum þar sem hefðbundið líf Bali búa og heilagar kýr blandast saman við lúxusvillur nútíma ferðamannsins í bland við gamla ástralska og bandaríska hippa sem hingað hafa komið árum saman með brimbrettið eitt að vopni.

En svona til að halda ferðasögunni í réttri tímaröð þá fórum við á balinesísku sýninguna á laugardagskvöldið og höfðum mjög gaman af. Allt mun einlægara og skemmtilegra en fyrri sýningin.

Stelpurnar lærðu að útbúa fórnir til guðanna og við horfðum á indónesískan dans á meðan við gæddum okkur á ýmsu góðgæti eins og hnetusalati, suckling pig o.fl. Elísa hefur síðan verið hugfangin af daglegum fórnum Hindúa og krefst þess að leggja til blóm og ávexti á hverjum morgni sem hún fær að sjálfsögðu að gera.

 Næsta morgun skelltum við Thelma Kristín okkur í Sea Walker þar sem 37 kg. hjálmi er skellt á hausinn á manni og þyngdin ýtir manni niður á botn, í okkar tilfelli á 4 metra dýpi. Þar stóðum við svo bara við kóralrifið og horfðum á lífið í kringum okkur

Eftir hádegismat vorum við svo sótt af honum Grey, bílstjóranum okkar næstu 4 dagana. Förinni var heitið norðar á eyjuna til Canggu á vesturströndinni. Hér gistum við svo í "villu" á Echo beach sem er nokkuð fræg strönd fyrir þá sem hafa áhuga á brimbrettareið.

Villan er byggð í balinesískum stíl sem þýðir opin svæði - engir veggir sem sagt. Nema á svefnherbergjunum sem betur fer. Samt er öllum nútíma þægindum fyrir að fara, við erum hér með fínasta eldhús, klósett í öllum svefnherbergjum og meira að segja okkar eigin sundlaug. Það er ótrúlegt að sjá hvernig þessar lúxus villur hafa sprottið hér upp á ökrunum á undanförnum árum og gera umhverfið hálf súrrealískt með samblöndu af gömlum og nýjum tímum.

Við skelltum okkur svo niður á strönd fyrsta kvöldið okkar og fengum okkur að borða. Okkur brá heldur í brún þegar við komum aftur heim og myrkrið hafði tekið völdin því dýralífið í húsinu er eðli  málsins samkvæmt aðeins meira en við eigum að venjast. Titillinn á blogginu í dag er tekinn frá Thelmu Kristínu sem átti svolítið bágt með að sætta sig við froskana sem hoppuðu um allt svo ekki sé minnst á eðlur upp um alla veggi, leðurblökur og alls kynst lítil dýr önnur sem maður kann ekki einu sinni að nefna. Það hefur nú samt tekist ágætlega að venjast þessu og hef ég nú heyrt nokkrar setningar frá börnunum mínum sem ég átti kannski ekki von á að heyra þau segja eins og "mamma, það er froskur í ruslatunnunni okkar", "eðlur eru bara kúl" eða "oh, ég steig í apaskít"!!

Í gær var ferðinni svo heitið í WaterBom á Kuta beach. Nettur en mjög fallegur vatnsrennibrautagarður sem var bara yndislegt að eyða heitum og rökum deginum í. Umhverfið var allt mjög fallegt, mikill gróður o.þ.h. Við erum reyndar alltaf hálf leiðinleg í þessum efnum eftir að hafa prófað Wild Wadi rennibrautagarðinn í Dubai - það kemst bara enginn með tærnar þar sem sá garður hefur hælana. En, samt sem áður skemmtum við okkur konunglega þó að Maggi með litla hjartað hafi þurfti svolítið "push" áður en hann hellti sér í fjörið.

Við pöntuðum svo bara kvöldmat inn á villuna okkar. Þá sér starfsfólkið um að versla, elda og ganga frá - bara gargandi snilld þegar maður er með svona litla gorma. Miklu betra en að láta þau sitja kyrr á einhverjum veitingastað. Maturinn var líka alls ekki verri og hafði Thelma Kristín á orði að þetta væri besta spaghetti sem hún hefði smakkað. Foreldrarnir voru líka mjög sáttir með rækjurnar sínar og var ákveðið að leikurinn skyldi endurtekinn næsta kvöld.

Sama á svo sem við um morgunmatinn hjá okkur - hann er innifalinn í villunni og hér mætir bara her manns á morgnana, hreinsar laugina og setur morgunmatinn á borðið. Kemur svo að sjálfsögðu og vaskar upp á eftir. Það er rigningartími á Bali og frekar fáir ferðamenn á ferli. Fyrir vikið er verðið á gistingu mun lægra en á sumrin og nýting á gistirýmum dræm. Við erum t.d. ein á okkar "hóteli" en almennt er verið í 4 villum. Starfsfólkið stjanar því við okkur eins og enginn sé morgundagurinn og í hvert sinn sem við komum í hús bíður okkar her manns sem tekur krakkana út úr bílnum og ber farangurinn inn. Það mæta 3 í uppvaskið og svo fram eftir götunum. Fyrir þetta greiðum við sama verð og á meðal hóteli. Í villunni eru 3 aðskilin svenherbergi og höfum við mikið rætt hvað þetta væri nú skemmtilegt fyrir þrenn hjón saman - dæmið væri þá hræódýrt á mann - hver og hver og vill??

En.. áfram með söguna... Í dag skelltum við okkur til Ubud sem helst er frægur fyrir að vera listamannbær Bali. Röltum þar aðeins um - svona eins mikið og hægt er að rölta með 3 börn og eina kerru í 35 stiga hita og raka og næstum engar gangstéttar. Hápunktur dagsins var þó heimsókn í Sacred Monkey Forest þar sem um 700 apar ráfa um, ferðamönnum til skemmtunar - eða stríðni ef menn passa sig ekki. Aparnir eru ótrúlega forvitnir og hrekkjóttir og þeir eru duglegir við að leita sér að mat sama þó að það sé ofan í töskum og bakpokum gestanna. Það er líka eins gott að passa sig því að þeir hafa tekið bæði myndavélar og síma af þeim sem sveifla þeim of glannalega. Á meðan við vorum í garðinum sáum við apa grípa bakpoka aftan af einni stelpu og tæta svo upp úr honum hverja flíkina af annarri og hlaupa svo í burtu með sólarvörnina í kjaftinum. Ég sá líka einn hoppa upp á konu sem hélt á opnum taupoka, skríða ofan í pokann og ná sér í eitthvað góðgæti áður en hann stökk niður aftur. Þeir voru ótrúlega snöggir að þessu og frábærlega fyndið að fylgjast með þeim - svona á meðan maður sat ekki sjálfur í súpunni.

Komum svo heim í eftirmiðdaginn, skelltum okkur í sund og fengum meira að segja nuddara til okkar við laugina (allt er þetta innifalið í dvölinni). Maturinn var svo borinn á borð stuttu síðar og nú sitjum við skötuhjúin hér afslöppuð og södd og gerum vaskskýrslur! Já, þetta var víst ekki bara frí alla leið!

3 Comments:

  • Ég kem með næst, ekki spurning.....þið sjáið þá um að fjarlægja svona alls konar kvikindi, ekki satt....? Þið eruð jú vön, hehe. Frábært að lesa ferðasöguna.....hlakka til að lesa meir...

    By Blogger Ása, at 9:31 AM  

  • Vá þvílíkur draumur....ég panta með takk :)
    Virkilega gaman að lesa og fá að fylgjast með.

    By Anonymous Sirrý, at 12:58 AM  

  • Jedúdda mia, ég hafði misst af þessum pósti. Held að það sé engin vöntun á ferðafélugum, við Davie erum alveg til í Balí draum bara name the date!

    Rosalega gaman að lesa allt sem á ykkar daga drífur hér.

    Vonandi sjáumst við í Maí.

    Stórt knús Sara xxx

    By Blogger Sara, at 10:29 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter