Melbourne

Sunday, February 03, 2013

Frá Hong Kong til Bali

Þetta lítur ekkert svo illa út, er það? Hingað komum við sem sagt á fimmtudaginn eftir 5 tíma flug frá Hong Kong.

Þessi vika verður líklega næst því að flokkast sem "frí" í ferðinni okkar góðu. Ætlum að dveljast í léttri leti hér á Bali og njóta sólarinnar, matarins, dýralífsins og gestrisninnar. Note to self, samt - ekki skipuleggja aftur svona viku yfir mánaðarmót og virðisaukaskil með tilheyrandi hausverk - þetta fer bara svo svakalega illa saman við regnhlífardrykk á sundlaugabakkanum!

Á miðvikudag fórum við krakkarnir annars í göngutúr í Hong Kong á meðan bóndinn þræddi allnokkra fundi. Fórum frekar seint af stað eftir aðra andvökunótt en hálfslysuðumst upp í grasagarðinn í miðborg Hong Kong. Þar hittum við fyrir nokkrar apategundir, skjaldbökur, fugla, þvottabjörn og fleira skemmtilegt. Um kvöldið var okkur svo boðið í mat af íslenskum félaga Marons og hans fjölskyldu sem býr í Hong Kong ásamt vinkonu minni hér og hennar fjölskyldu. Þá gafst okkur tækifæri til að bregða okkur aðeins út úr miðbænum og sjá aðra hlið á Hong Kong.

Ótrúlega gaman að hitta þetta góða fólk og gúffa í okkur ljúffengri fiskisúpu. Ég held ég gæti alveg vanist þessum lífsstíl sem vesturlandabúar í Asíu (og á fleiri stöðum svo sem) njóta, þ.e. að hafa húshjálp á heimilinu - helst eina í eldhúsinu og hina í barnaherberginu. Þá myndi ég sko aldeilis splæsa í matarboð eins og enginn væri morgundagurinn og njóta þess að sitja með gestunum mínum og spjalla.

Börnin voru svo rifin á lappir fyrir allar aldir á fimmtudagsmorgun og dregin út á flugvöll. Ferðin gekk vel og það var ljúft að komast í hitann og rakann á Bali. Hótelið er mjög fínt og þjónustan svo góð að manni líður hálf illa. Vorum sótt út á flugvöll og dregin inn í prívatherbergi við komu til að tékka inn. Þar stjönuðu tveir starfsmenn við okkur á meðan innritun stóð; færðu okkur heita þvottapoka og ferska drykki. Eiginlega var þetta svo yfirdrifið "nice" að maður hugsaði bara um að hafa augun á öllum verðmætum því það hlyti eitthvað að vera einhver önnur ástæða á bak við þjónustuna en bara góðmennska - en þetta var víst bara hin rómaða balinesíska gestrisni. Við fengum svo fylgd upp á herbergi og urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Fengum flotta svítu (þeir koma víst ekki aukarúmi inn í "venjulegu" herbergin), ótrúlega flott innréttaða í balinesískum stíl og hér lifum við eins og blóm í eggi.

Um kvöldið fóum við í mat og sýningu hér út í garðinn. Þemað var "latino". Hlaðborðið var fínt en það er bara eitthvað hræðilega hjákátlega krúttlega kjánalegt við að sjá hálfnakta Indónesa dansa salsa. Eitthvað höfðu þeir líka vanmetið eyrun okkar því allt hljóð var svo hræðilega hátt stillt að ég gat ekki heyrt í börnunum þó ég bograði yfir þeim og skæri ofan í þau matinn svo það var enginn leið að halda uppi einföldum samræðum við matarborðið og ekki leið á löngu þar til krakkarnir voru farnir að grátbiðja okkur um að koma þarna í burtu.

Í gær dóluðum við okkur svo bara hér á hótelinu. Sem betur fer var skýjað svo hitinn var vel þolanlegur. Reyndar rigndi svolítið um morguninn og notuðu Magnús og Elísa tækifærið og heimsóttu krakkaklúbbinn. Maggi var alveg sáttur við að við færum aðeins frá (eða reyndar var svarið þegar ég spurði hann "Ég er upptekinn" enda hafði sá stutti fundið sér eitthvað að leika með) en við - og allir aðrir hótelgestir - heyrðu skýrt og greinilega þegar hann skipti um skoðun. Við heyrum öskrin alla leið niður á strönd svo mamman var fljót að hlaupa til og endurheimta dauðskelkað barnið. Stelpurnar eru hins vegar himinlifandi með klúbbinn enda mikið föndur í boði sem þeim leiðist sko ekki. Æðislegt að geta slappað aðeins af þar í loftkælingunni þegar nóg er komið af sólinni. Maron og Thelma Kristín skelltu sér í siglingu á hraðbát en annars var þetta mjög rólegur dagur.

Í dag vöknuðum við svo nokkuð snemma í glampandi sól og 35 stiga hita og fórum með litlum bát með glerbotni úti til "Turtle Island" sem er um 15 mín. sigling. Þar var hægt að skoða skjaldbökur af ýmsum stærðum og gerðum og ýmis önnur dýr. Thelma Kristín var hetja dagsins þegar hún lét sig hafa það að halda bæði á leðurblöku og snák. Myndir væntanlegar!

Annar letidagur fylgdi svo í kjölfarið þar sem skipst var á að vera í sundlauginni, á ströndinni, leikvellinum eða í krakkaklúbbnum. Magnús lét sig hafa það að vera skilinn eftir þar í hálftíma ef stóra systir fylgdi með svo við hjónin náðum 30 mín. í afslöppun við laugina með svalan drykk í hendi - Algjör lúxus. Við splæstum á okkur "all inclusive" pakka svo við löbbum hér á milli bara og veitingastaða og fáum okkur ferskar kókoshnetur, ananas og melónudjús og ýmislegt annað sem hugurinn girnist. Get alveg mælt með þessum stað fyrir ykkur sem langar í gott frí :-) Maron og Thelma Kristín skelltu sér líka á "banana boat" í dag og á morgun ætlum við mæðgurnar í klukkutíma "sea walking" hvað sem það nú er!

Jæja, nú er víst kominn tími til að hafa sig til fyrir sýningu kvöldsins. Þemað í kvöld er sem betur fer "Balinese Village" - ég hef trú á að það verði mun einlægari og áhugaverðara en sýning en sú á fimmtudaginn.


3 Comments:

  • Öfund öfund öfund, þetta er bara snilld hjá ykkur. Stefni að því að gera þetta einhvern tímann....og sleppa við þennan vetur hér.....bíð spennt eftir myndum og Emma líka

    By Blogger Ása, at 7:35 PM  

  • ji minn hvað þetta hljomar allt saman dásamlega, meira segja krakkaklúbburinn hljómar vel ;)

    ég sit bara í tölvunni mð heitt, te, í úllarsokkum, flísbuxum, þykkri peysu og með klút því það er svo geggjað gott veður hérna á "paradísareyjunni" *hóst hóst* ;)

    Hlakka til að sjá myndir frá ykkur og skoða þær dreymin, óskandi þess að ég væri á sólarströnd í bíkiníi með regnhlífardrykk við hönd ;)

    By Blogger Fjóla, at 9:50 PM  

  • Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með. Mjög spennandi að lesa og segja Brynhildi frá og fylgjast með á kortinu hvar Elísa er stödd í heiminum :) Góða skemmtun. kv. Karen og co.

    By Anonymous Anonymous, at 6:48 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter