2000 km síðar
Halló halló
Lögðum af stað á miðvikudagskvöldi og ókum sem leið lá 600 km í norðaustur rúmlega hálfa leið til Sidney. Við vorum á ferðinni frá kvöldmat og nokkuð fram á nótt sem er svo sem ekki merkilegt - nema vegna þess að einu ferðalangarnir fyrir utan okkur voru trukkabílstjórar á sínum 16 hjóla trukkum með aftanívagni! Við vorum eins og krækiber í helvíti í nær stanslausri röð flutningabíla sem nær svo til óslitið á milli Melbourne og Sidney á kvöldin og næturnar. Afskaplega spes akstur og ekki laust við að manni létti þegar komið var á áfangastað. Gistum í litlum bæ sem ber hið skemmtilega nafn Gundagai. Þetta var greinlega smábær smábæjanna því þegar við sögðumst vera á ferðinni eftir miðnætti var svarið bara "ekkert mál, þið labbið bara upp í gegnum veitingastaðinn, hann verður opinn. Þið eigið herbergi 15, lyklarnir eru á borðinu"!! ... og þetta stóðst allt.
Á fimmtudeginum keyrðum við svo til Sidney þar sem við gistum á 67. hæð í miðbænum. Talandi um "room with a view"!! Svalirnar höfðu verið yfirbyggðar svo stór veggur í stofunni var úr gleri frá lofti og niður í gólf með þvílíku útsýni að ég hef aldrei séð annað eins! Höfðum ekki í okkur að fara út að borða um kvöldið vitandi það að enginn veitingastaður gæti boðið betra útsýni svo maturinn var heimsendur og svo sátum við bara og nutum vel.
Maron var svo að vinna á föstudeginum svo við mæðgur tókum okkur göngutúr niður í Rocks eftir að hafa tekið smá sundsprett í hótellauginni um morguninn. Fórum svo með Maroni upp á skrifstofu áður en við héldum úr bænum. Ókum upp ti Port Macquarie og hvíldum okkur um nóttina. Eftir góðan morgunverð (Thelma Kristín var svo hrifin af hlaðborðinu að ég var komin með móral yfir að borga barnagjald fyrir hana!) og smá lærdómsátak hjá minni á meðan pabbin fór með skvísurnar í göngutúr (eitthvað nefndi hann líka skoðunarferð um þriggja mastra skútu í höfninni) var haldið af stað norður eftir ströndinni í átt til Brisbane. Fengum okkur fisk í Coffs Harbour og kvöldmat í Byron Bay (báðir þekktir sumarleyfisbæir hér í Ástralíu) og enduðum svo á hinni frægu Gold Coast. Höfðum jafnvel hugsað okkur að eyða sunnudeginum þar (kannski taka einn skemmtigarð í viðbót) en eftir laugardagskvöld á staðnum mundum við eftir því að hann er ekkert nema ofvaxinn unglingaskemmtistaður og gátum ekki beðið eftir því að færa okkur yfir á litlu og fjölskylduvænu Sunshine Coast. Svo við drifum okkur síðasta spölinn og vorum komin til Mooloolaba um 2 leytið á sunnudeginum....
...og hér höfum við svo hreyðrað um okkur, heimilislausa fjölskyldan, og við mæðgur njótum lífsins á meðan bóndinn vinnur fyrir brauðinu. Reyndar er mín líka að reyna að vinna upp námsefnið sem lítill tími gafst fyrir í flutningum og ferðalögum. Hér er nú reyndar kominn vetur og hitinn "ekki nema" rúmar 20 gráður á daginn. Kannski ekki nægur hiti til að liggja á ströndinni í baðfötum - en fínn til að dunda þar með skóflu og fötu - sem snúllurnar mínar kunna líka vel að meta.
Ég gekk svo vel frá myndavélinni okkar á hótelinu í Melbourne að hún fannst ekki aftur fyrr en í gærkveldi! Svo eitthvað er nú lítið til af myndum af þessu ævintýri okkar - en kannski ekki mikið að sjá nema tvær sætar sofandi stelpur í aftursætinu á bílnum okkar ;o)
3 Comments:
Njótið síðustu kílómetranna og sjáið sem flest. Þið eruð ekki að missa af neinu hér heima, nema skjálfandi jörð.....!!!
Knús frá Íslandi
Sirrý
By
Anonymous, at 10:23 PM
Gott að heyra að allt gengur vel. Njótið nú vel síðustu stundanna í þessu ævintýri og svo hlakkar okkur til að fá ykkur heim í litlu ævintýrin okkar hér ;)
Knús og kram
Anna Ólöf
By
Anonymous, at 9:21 AM
Oh, öfund, bara gaman að skoða sig um og njóta lífsins áður en komið er í trillinginn á Íslandi.
Er einmitt ennþá að naga mig í handabakið yfir því að hafa tekið þá ákvörðun að vera á Íslandi í allt sumar í "góða" veðrinu hérna í staðin fyrir að vera í unaðslega veðrinu sem er núna í DK. Ég geri sjálfri mér það ekki að skoða veðurspána í Randers !
En hafið það gott síðusta dagana meðal innfæddra og hlakka til að sjá ykkur á ættamótinu.
knús og kossar.
By
Anonymous, at 9:00 AM
Post a Comment
<< Home