Back Down Under
Stoppuðum í Singapore í 4 daga - bara frí hjá familíunni - ef maður getur kallað það frí að vera með tvö flugþreytt börn að reyna að skoða nýjan stað. Lítið sofið á nóttunni...mikið fram eftir degi og svo nýtti maður eftirmiðdaga og kvöld til að skoða Singapore. Sem betur fer er allt opið til 10 á þeim ágæta stað!! Urðum að byrja á smá verslunarleiðangri því okkar ástkæru starfsmönnum á Heathrow flugvelli tókst auðvitað að týna annarri töskunni okkar - já, ég sagði ANNARRI töskunni. Ekki spyrja mig af hverju þeim tókst að koma einni tösku í vélina en hinni ekki. Það gefur nú samt auga leið að taskan sem rataði í flugið okkar var auðvitað sú taska þar sem ég hafði pakkað öllum þeim hlutum sem við þyrftum örugglega EKKI að nota í Singapore, sem sagt vetrarfötum og jólagjöfum!
Notuðum annars tímann til að skoða Singapore lítillega bæði fótgangandi og í strætó. Fórum líka út á eyju þarna fyrir utan og horfðum á frábæra sýningu með laysergeislum, vatni, eldi, tónlist, flugeldum og fleiru - mjög skemmtilegt. Síðasta deginum eyddum við svo í dýragarðinum sem var einn sá flottasti sem ég hef komið í. Mikið gert upp úr því að hafa svæðin opin og búrin sem ósýnilegust.
~







Thelma Kristín á Korean BBQ
Áttum svo bókað flug í gegnum Brisbane þar sem beina flugið til Melbourne var fullt. En við vorum svo heppin að Qantas menn breyttu þessu öllu fyrir okkur á síðustu stundu úti á velli og við fengum beint flug heim - munaði 6 tímum í ferðalagi svo þið getið ímyndað ykkur hamingjuna á liðinu.
Þegar heim var komið tók svo alvaran við. Skólinn hjá okkur mæðgum og vinna hjá bóndanum. Reyndar tókst nú Maroni að hafa með sér íslenska flensu í farangrinum (þeir hefðu nú mátt týna henni á Heathrow) svo hann var mikið heima við í síðustu viku enda gersamlega þegjandi hás.
Það var nú frekar ljúft að komast hingað í sólina þó það hafi verið fremur kalt fyrstu dagana - rétt um 20 gráðurnar, hehe! En þetta er allt að færast í betra horf, skreið yfir 30 gráðurnar í dag og við eyddum deginum í að þræða húsgagnaverslanir (!).
Ég held það sé loksins að komast rútína á Elísu. Þessi heimferð var dropinn sem fyllti mælinn hjá litla ferðalangnum mínum og hún hefur sofið hræðilega illa síðan við lögðum af stað frá Íslandi. En ég held að þetta sé nú allt að koma núna - síðustu 3 nætur hafa verið bærilegar. Það hefur heldur ekki bætt úr skák að hún hefur verið kvefuð greyið og svo er hún farin að standa upp í rúminu sínu og gerir það fram í rauðan dauðann - sama þó hún sé svo til sofnuð - um leið og maður sleppir af henni hendinni fer hún upp, og heldur sér svo dauðahaldi og orgar því hún veit ekki hvernig hún á að setjast niður.


Hæstánægð í nýju göngugrindinni


Held ég láti bara myndirnar tala sínu máli í þetta sinn - hin opinbera myndasíða er steindauð enn þá! Læt heyra aftur frá mér fljótlega.
Yfir og út
2 Comments:
Ohhh æði að fá að sjá myndir, mér finnst það alltaf jafn gaman að kíkja inn og rúlla í gegnum myndirnar.
Bið að heilsa úr rigningunni á íslandi
Kveðja
Anna Ólöf
By
Unknown, at 10:10 AM
Hæ
Gaman að heyra af ykkur og sérstaklega sjá myndir!!! Elísa snúlla er greinilega á fullu blússi :) Svo er það þetta með húsgagnaverslanirnar... við erum líka með innkaupalista áður en þið farið að pakka í gáminn, he, he, he.... ;)
Hafið það gott, heyrumst fljótlega.
Kveðjur af Kristnibrautinni,
Soffía og co.
By
Anonymous, at 9:41 PM
Post a Comment
<< Home