Melbourne

Thursday, October 12, 2006

Grampians þjóðgarðurinn

Sko mína.. bara blogg í hverri viku, haldiði það sé framför!

Vorið er heldur betur komið til Melbourne, 33 stiga hiti í gær og 36 stig í dag. Þetta hlýtur að vera ávísun á ALLT of heitt sumar!! Verst að við nutum ekki góðs af þessari hitabylgju í ferðalaginu um helgina.

Thelma Kristín fór í afmæli á laugardeginum í bongóblíðu. Afmælið var haldið á róluvellinum á móti húsinu okkar, öllum bekknum boðið og fjörið eftir því. Mér skilst að það hafi verið fjör hjá foreldrunum frameftir kvöldi en við misstum af því þar sem við lögðum af stað í Grampians þjóðgarðinn á laugardagseftirmiðdeginum.

Óli og Halldór lögðu af stað niður Great Ocean Road deginum áður. Þeir hættu við þau áform sín að kaupa druslu í ferðalagið og leigðu sér ágætis húsbíl með öllum græjum. Miklu þægilegra fyrirkomulag held ég.. og öruggara auðvitað. Ef eitthvað bilar er bara komið með nýjan bíl! Strákarnir óku sem sagt sem leið lá vestur Great Ocean Road og svo norður úr yfir í Grampians þjóðgarðinn. Við höfðum þar leigt sumarhús á Tjald/húsbíla/sumarbústaðasvæði. Slíkt er mjög vinsælt hér... fólk getur mætt með tjaldið eða húsbílinn eða leigt sér lítinn, já eða stóran, kofa. Ef maður velur flottan garð er útiaðstaðan oft mjög skemmtileg (þó að húsin séu kannski ekki alltaf 1sta flokks). Í þessum garði var t.d. sundlaug, tennisvellir, róló og hoppudína (sem vakti mikla lukku hjá yngsta ferðalanginum).

Veðrið á sunnudeginum var því miður ekkert í líkingu við blíðuna á laugardeginum. 18 stiga hiti, rok og skúrir. Við tókum því rólega fram eftir morgni en ákváðum þá að fá okkur bíltúr um þjóðgarðinn. Í fyrrasumar urðu miklir skógareldar á þessu svæði og stór hluti garðsins eyðilagðist. Það var alger guðsmildi að bærinn sem þarna stendur, Halls Gap, slapp því það brann allt í kringum hann. Alls brunnu 130 þúsund hektarar lands!!! Það var vægast sagt mjög áhugavert að sjá eyðilegginguna og ekki síst hvernig skógurinn er að byrja að lifna við aftur. Eldurinn hefur greinilega farið hratt yfir og helst eyðilagt gróður nálægt jörðu. Sá gróður er nú óðum að koma aftur. Stór tré hafa staðist eldinn en allar smærri greinar hafa brunnið. Því eru nú að koma laufblöð á stofnana en það vantar flestar greinar á trén, mjög sérstakt. Gróðurinn var auðvitað ekki þéttur þar sem hafði brunnið og því sérstaklega auðvelt að sjá dýrin sem lifa í skóginum. Það var ekki þverfótað fyrir kengúrum sem stukku óhræddar yfir veginn og við fengum í eitt skiptið að bremsa fyrir allan peninginn.. fínar bremsur á bílnum okkur, sem betur fer fyrir viðkomandi kengúru og ungann hennar litla. Sáum líka mauraætu, snák (steindauðan sem betur fer), dádýr, allt kyns páfagauka og kookaburra.

Veðrið daginn eftir var miklu fallegra og við hófum daginn á góðum göngutúr. Fengum okkur svo hádegismat í Halls Gap áður en lagt var af stað í bæinn. Góð ferð í alla staði. Við sjáum alltaf eftir svona helgi að við verðum að vera duglegri við að skella okkur í svona helgarferðir.

Ég var svo sofandi þegar ég pakkaði niður fyrir ferðina að við vorum hálfbúin fyrir svona rigningardag, enda er maður hættur að reikna með slíkum dögum hér. Enginn var regngallinn með eða úlpan.. og verst af öllu. Ég gleymdi myndavélinni!!! Ég verð því að vísa ykkur yfir á síðuna hjá strákunum fyrir myndir.. kíkið á www.afjoll.blogspot.com til að sjá myndir úr ferðinni.. þar getið þið líka fylgst með ævintýrinu hjá bræðrunum.

Vikan hefur svo flogið hjá eins og óð fluga. Allt gengur sinn vanagang. Nóg að gera í skólanum hjá okkur Thelmu Kristínu og í vinnunni hjá húsbóndanum. Hann er á leið til Japans um helgina og verður í viku svo það verður rólegt í kotinu.

Jæja, best að snúa sér aftur að bókunum. Eyddi deginum í að lesa vitlausan kafla svo nú er best að spýta í lófana.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter