Melbourne

Friday, October 06, 2006

Af veiðimönnum og öðru ævintýrafólki

Ég veit nú ekki hvort það kíkir nokkur hingað inn enn þá... líklega flestir búnir að gefa upp vonina! En ég ákvað nú samt, eftir nokkrar áskoranir, að láta heyra stuttlega í mér.

Helsta ástæða bloggleysis er auðvitað sú að það hefur verið í nógu að snúast eftir að skólann byrjaði. Það gengur bara vel og ég hef furðu gaman að þessu enn sem komið er. Óli og Halldór komu svo í heimsókn fyrir ca. 10 dögum og því hefur verið sérstaklega kátt í kotinu.

Strákarnir hafa verið að dúllast hér í Melbourne en leigðu sér húsbíl í dag og lögðu af stað í leiðangur. Reyndar ekki mjög langt í þetta sinn. Þeir ætla niður Great Ocean Road í kvöld og á morgun og við ætlum svo að hitta þá í Grampians þjóðgarðinum á morgun þar sem við höfum leigt okkur sumarhús. Planið er að dvelja þar í tvær nætur áður en haldið verður aftur í Melbæinn. Strákarnir ætla svo til Tasmaníu í næstu viku og líta svo við hjá okkur áður en þeir leggja í ferðina upp með austurströnd Ástralíu.

Allt gott að frétta af skvísunni, að sjálfsögðu. Hún tekur miklum framförum í skólanum þessa dagana og er að verða fluglæs bæði á íslensku og ensku... ekki slæmt fyrir 5 ára kríli. Strákarnir hlæja nú doldið að ísl-enskunni hennar enda er hún svo rugluð eftir skóladaginn að það þyrfti helst að fylgja með henni túlkur. Mér finnst reyndar fyndnast þegar hún er að tala góða og gilda íslensku en er greinilega að þýða frá ensku í kollinum.

Ég hef til gamans punktað hjá mér nokkrar setningar sem ég hef munað lengur en 5 mínútur:
"Ég lít fyrir höfrunga og þú lítur fyrir seli"
"Cameron er í ást á mér"
"Mamma, á ég að segja þér sögu sem ég gerði upp?"

Ég leyfi ykkur svo að finna út úr því hvað er að gerast í kollinum á henni ;o)

Ástæðan fyrir höfrunga og sela kommentinu er sú að fyrir nokkru fórum við með frænda Marons í sjóstangaveiði. Það var hin besta skemmtun þó veiðin hafi ekki verið neitt til að monta sig yfir. Höfrungar fylgdu okkur á útsiglingunni og mörgæsir svömluðu í fjarska. Ástæða dræmrar veiði var fyrst og fremst selsskratti sem hringsólaði um bátinn og hafði af okkur allan fisk, lék sér svo að honum í kringum okkur - bara til að núa okkur þessu um nasir.

Thelma Kristín var nú heldur óþolinmóður veiðimaður og vildi sífellt vera að draga upp línuna. Eftir að hafa verið að banna henni það mestalla ferðina ákvað ég að láta hana eiga sig síðustu mínúturnar. Hún dúllaðist við að draga upp línuna og það hvarflaði ekki að mér annað en að hún kæmi ekki upp með annað en vel baðaðan smokkfisk sem við notuðum í beitu. En viti menn.. mín dró bara upp ágætis "Flathead". Landaði honum sjálf og var auðvitað að rifna úr stolti með árangurinn. Setti inn fleiri myndir af hetjudáðinni á myndasíðuna svo þið getið sjálf séð.



Setti líka inn nokkrar myndir af heimsókn okkar á Royal Melbourne Show um helgina. Gamalgróin landbúnaðarsýning með góðum aukaskammti af tivolitækjum og fjöri. Röltum þarna um í bongóblíðu og höfðum gaman af.

Jæja, loksins komnar smá fréttir .. og nokkrar myndir af okkur familíunni. Reyni að láta í mér heyra eftir helgina, vonandi með skemmtilegar myndir af helgarferðinni. Eigum að skila hópverkefni á mánudag svo það er best að ég þykist krukka eitthvað í þessu áður en ég sting af yfir helgina!!

Vona að fólk hafi ekki algerlega gefist upp á mér og að einhverjir líti hér enn inn öðru hverju. Lofa að láta ekki líða jafnlangan tíma fram að næsta fréttaskeyti.

Knús
Unnur

4 Comments:

  • Æði að heyra frá ykkur aftur! Nei ég gefst sko ekkert upp, held bara áfram að kíkja inn þar til eitthvað kemur. En það gleður óendanlega að heyra nýjar fréttir og sögur :)
    Gangi ykkur vel og góð kveðja til allra!

    By Anonymous Anonymous, at 9:08 AM  

  • Loksins færsla bara :D
    En heyrðu, ég er bara búin að steingleyma hvaða username og password ég valdi mér til að komast í albæumið ykkar :s Geti þið sent mér það eða á ég bara að skrá mig aftur ?

    Heilinn starfar ekki alveg á fullu þessa dagana :D

    kv. Fjóla

    By Anonymous Anonymous, at 5:08 AM  

  • Hjúkkit.. gott að það er enn til fólk sem nennir að lesa!

    Fjóla mín... og bumbubúinn.. var nú ekki einu sinni búin að óska ykkur til hamingju!!... Þú skráir þig bara aftur, ég sé aldrei lykilorðin nebblega.

    Knús til ykkar og allra bumbubúa ;o)
    Unnur

    By Blogger Unnur Gyda Magnusdottir, at 8:36 PM  

  • Æ, ekkert smá krúttlega ísl-ensku setningarnar, ég hef einmitt líka sömu reynslu og ég held ég ætti að fara að punkta þær niður - maður er með soddan gullfiskaminni. Góða skemmtun með bræðrum þínum!

    By Anonymous Anonymous, at 6:27 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter