Melbourne

Friday, May 05, 2006

Af gullgröfurum og sótsvörtum almúga

Hafið þið fylgst með fréttunum af námumönnunum í Tasmaníu sem festust ofan í gullnámu fyrir 10 dögum og sitja enn fastir? Sé að íslenskir fjölmiðlar hafa öðru hverju reifað málið en hér ríkir algert fjölmiðlafár og í landinn bíður spenntur eftir að björgunaraðgerðum ljúki. Lítill jarðskjálfti varð til þess að grjóthrun lokaði námunni. Þrír menn lokuðust inni, á næstum kílómetra dýpi, og voru taldir af. Einn fannst látinn eftir 2 daga og þegar ekkert hafði spurst til hinna tveggja eftir fimm daga voru menn orðnir úrkula vonar um að þeir myndu finnast á lífi.

En til allrar hamingju höfðu mennirnir tveir náð að leita skjóls inni í litlu "búri"(rúmur meter á hverja hlið!)sem tók mesta grjóthrunið af þeim og eftir fimm daga náðist samband við kappana með því að smokra til þeirra mikrafóni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna sem greip þjóðina alla og nú fygjast Ástralir grannt með björgunaraðgerðum sem hafa staðið frá því á sunnudag. Fljótlega var borað til þeirra "neyðarop" sem hægt er að nota til að koma mat og ýmsum öðrum nauðsynjum til mannanna á meðan verið er að grafa ný göng til að ná þeim út. Öll björgunaraðgerðin er samt mjög hættuleg og ekki má skeika nema nokkrum sentimetrum við boranir til þess að mennirnir sjái ekki morgundaginn.

Nú bíða fjölskyldur mannanna, og í raun ástralska þjóðin öll, með öndina í hálsinum eftir fréttum úr námunni. Mennirnir bera sig ótrúlega vel og hafa óskað eftir því við sjúkraliða að fá að ganga út þegar þar að kemur. Síðan á sunnudag hefur verið talað um að björgunin muni taka 48 tíma, á hverjum degi er talað um 48 stundir enn. Verð að viðurkenna að maður hefur smitast af fjölmiðlafárinu hér og krossleggur nú fingur og tær í von um að allt fari vel að lokum. Mér skilst að mennirnir hlæi mikið af því þarna niðri að þeir séu orðnir frægir og að líklega muni verða gerð um þá kvikmynd.. spurningin er bara hvorn kappann Russel Crowe muni leika!!

En af okkur almúganum er annars gott að frétta. Kristófer byrjaði í skólanum í dag. Ég fór með honum í morgun og bjallan hafði ekki hringt inn þegar hann var byrjaður í boltaleik með strákunum í bekknum svo þetta leit allt vel út. Maður þarf auðvitað að hafa bein í nefinu til að mæta svona í nýjan skóla í stuttan tíma en ég veit af eigin reynslu að þetta gerir manni bara gott. Var að taka það saman í morgun að sjálf hef ég setið í kennslustundum á 5 tungumálum, ekki slæmt það!

Við höfum svo fundið upp á ýmsu til að stytta okkur stundir í vikunni. Fórum á vísindasafnið með krakkana á laugardaginn. Alveg frábært safn, við höfðum 2 og hálfan tíma að drepa þarna inni og náðum ekki að sjá helminginn svo að við erum búin að lofa krökkunum að fara aftur áður en við förum til Íslands. Meiriháttar leið til að gefa börnum raunhæfa hugmynd um vísindi í daglegu lífi. Mesta lukku vakti íþróttadeildin í safninu þar sem hægt var að mæla og prófa krafta sína og leikni á ýmsan hátt, t.d. á hlaupabraut, snjóbretti, veggjaklifri, fimleikum og markvörslu.

Við Kristófer vorum svo frekar róleg fyrri part vikunnar. Ég hef þurft að vera aðeins viðloðandi skólann, á fundum og inni í skólastofunni en þess á milli höfum við Kristó dundað okkar við spilamennsku, á golfvellinum, í hjólatúrum og við ýmislegt þess háttar.

Kristófer er líka alltaf í boltanum. Hann var að keppa á sunnudaginn og gekk vel þrátt fyrir að þeir hafi rétt tapað leiknum. Hann er svo á æfingum á þriðjudögum og fimmtudögum svo það er nóg að gera.

Í gær var starfsdagur í skólanum svo ég fór með krakkana í Imax þrívíddarbíó og á Melbourne Museum. Alltaf jafn gaman.

Annars erum við nú að verða spennt að komast til Íslands, það styttist óðum. Tvær vikur í dag þar til við leggjum af stað til Dubai. Ég hlakka mikið til að stoppa aðeins í eyðimörkinni áður en við mætum galvösk í íslenskt "sumar", það mun ekki veita af að fylla aðeins á sólarbirgðirnar.

En íslenskt sumar snýst auðvitað ekki um sól og sælu heldur góðan félagsskap og sælu. Hlakka mikið til að hitta fjölskyldu og vini og tek glöð við tillögum og bókunum um fundi og fagnaði.

Þangað til... njótið vorsins og birtunnar,
Knús
Unnur Gyða

1 Comments:

  • Ohhh hlakka svo til að fá ykkur til landsins. Ég panta strax "fund" :)

    By Anonymous Anonymous, at 11:00 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter