Melbourne

Friday, June 03, 2005

Kátt í koti

Halló halló

Hef nú verið löt að blogga undanfarnar vikur enda líf og fjör í kotinu. Kristófer og Anna Ólöf mágkona mættu sem sagt í heimsókn á mánudagsmorgni fyrir tæpum 2 vikum. Þau voru auðvitað ansi flugþreytt fyrstu dagana eftir langt ferðalag og við tókum lífinu með ró. Fórum í göngutúra um næsta nágrenni á milli þess sem ferðalangarnir lögðu sig. Flugþreytan (þegar maður flýgur í þessa átt alla veganna) lýsir sér þannig að fólk vaknar eldsprækt fyrir allar aldir (svona um fimm leytið) og er svo orðið þreytt upp úr hádegi. Þá hefst baráttan um að halda sér vakandi til að rétta úr kútnum og hún stendur yfirleitt fram undir kvöldmat en þá verður maður að játa sig sigraðan og lognast út af. Smám saman hangir maður svo lengur á daginn og sefur þar af leiðandi lengur á morgnana.

Eftir tvo daga hættum við Anna Ólöf okkur reyndar í verslunarferð á meðan Kristófer fór með pabba sínum í vinnuna. Árangurinn var ágætur en betur má ef duga skal! Fórum því á fimmtudeginum á Queen Victoria Market með krakkana og bættum skorið aðeins þar.

Á laugardeginum fórum við svo með allt gengið í sund í stóra innilaug sem er hér stutt frá. Á eftir fórum strákarnir á fótboltaleik (ástralskur fótbolti) og við stelpurnar á magadans-workshop (þetta er svo kynjaskipt að það jaðrar við að vera sexismi!)

Á sunnudaginn fórum við til Phillip Island að skoða kóalabirni og mörgæsir (ef þið vijið nánari lýsingar er þær að finna í fyrra bloggi :o) ) Það var mjög gaman.. kóalabirnirnir miklu meira vakandi núna en síðast.. og við sáum líka fleiri kengúrur... og fleiri mörgæsir en síðast, svo þetta var góð ferð. Ég held líka að gestunum hafi þótt gaman að sjá þetta - við tókum fullt af myndum sem verða settar á vefinn innan skamms.

Ég fór með Maroni í vinnuna á mánudag og miðvikudag á meðan Thelma Kristín var í leikskólanum. Kristófer og Anna Ólöf notuðu tímann og skelltu sér í dýragarðinn á mánudeginum og á sædýrasafnið á miðvikudeginum. Mér skilst að eftir ferðina í dýragarðinn í Melbourne (sem er einn af þeim bestu í heimi) hafi ferðin á sædýrasafnið nú ekki staðist væntingar.

Í gær tókum við lestina yfir í hinn endann á St.Kilda og löbbuðum eina mestu tískugötu Melbourne heim aftur (en hún liggur einmitt næstum beint heim til okkar!) Við kíktum nú lítið inn í búðirnar í þetta sinn enda báðir krakkarnir með okkur en vonandi fáum við tækifæri til að skoða þær nánar. Í gærkvöldi passaði Anna Ólöf svo fyrir okkur hjónakornin og við skelltum okkur út að borða og í bíó. Voða lúxus að hafa svona barnapíu.. við höfum auðvitað ekki komist barnlaus út fyrir hússins dyr síðan við fluttum hingað, enda kom nú svolítið á þá stuttu þegar við sögðumst ætla út... en hún var fljót að jafna sig enda félagsskapurinn góður.

Við gamla settið fórum á TGI Fridays og fengum fínan mat.. en lélega þjónustu! Sáum svo nýju Adam Sandler myndina og hlógum okkur máttlaus (þau söguþráðurinn hafi verið slakur a la Adam Sandler). Þetta var voða fínt bíó sem við fórum í... númeruð sæti og allt! Við höfum ákveðið að nýta pössunartækifærið enn frekar og höfum skráð okkur á golfnámskeið tvo daga í viku þar til við förum heim. Við verðum sem sagt til í slaginn á Flúðum í sumar!

Röltum svo um í miðbæ Melbourne í dag og fórum m.a. að skoða konunglega grasagarðinn hér í borg. Ofsalega fallegur garður sem ég hlakka sko til að rölta um í vor þegar allt verður í blóma.

Planið fyrir morgundaginn er svo Great Ocean Road (þið getið flett upp á fyrra bloggi fyrir nánari smáatriði!!) Við vorum að hugsa um að gista á leiðinni og taka okkur tvo daga í ferðina minnug þess að hún var strembin síðast en hættum við á síðustu stundu enda veðrið ekki jafn gott og því hætt við að göngutúrarnir verði styttri og við verðum fljótari í förum. Við eigum því sunnudaginn til góða og erum ekki alveg búin að ákveða hvernig við nýtum hann.

Thelma Kristín er auðvitað alveg himinlifandi yfir gestagangnum hjá okkur. Henni finnst æðislegt að hafa Kristófer og Önnu Ólöfu hér og ég myndi giska á að meðalhávaðinn í barninu hafi aukist um ca 30 dB enda brói mættur til að gasla í henni. Kærkomin tilbreyting eftir að hafa verið með mömmu gömlu að púsla og teikna í þrjár vikur! Hún fer enn á leikskólann tvisvar í viku og starfsfólkið þar er ofsalega ánægt með hana, segir hana vera orðna ansi lunkna í enskunni.

Læt fylgja með eitt gullkorn frá dömunni. Hún kom heim af leikskólanum um daginn, upprifin af sjúkrahúsinu sem þar hafði verði sett upp (með sárveikum böngsum og dúkkum), þar var meira að segja apótek með fínni afgreiðslu og svona "borgara" til að borga fyrir meðalið - þetta hét nú bara búðarkassi þegar ég var lítil!

Jæja, nú er klukkan orðin margt fyrir okkur sem ætlum að taka daginn snemma á morgun. Held ég láti þessar línur duga í bili. Myndir koma fljótlega... ég lofa.

Bið að heilsa í bili
Kveðja
Unnur Gyða

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter