Melbourne

Tuesday, March 29, 2005

Páskar

GLEÐILEGA PÁSKA!!

Höfum haft það rosalega gott hér yfir páskana þó að það sé alltaf öðruvísi að vera fjarri fjölskyldu og vinum á hátíðisdögum. Ástralarnir taka nú páskana ekkert allt of alvarlega. Þetta er eins stærsta ferðahelgi ársins hjá þeim og umræðan snýst meira um banaslys í umferðinni en kirkjuna og páskakanínuna. Í Victoriufylki dóu 9 í umferðinni um helgina og þykir mjög slæmt. Enda eru menn hér farnir að óska mönnum öruggra páska - þeir segja "We wish you a safe and happy Easter"!

Annars eru Melbæingar að tapa sér yfir sjálfsmorði Paul Hester, fyrrum trommuleikara Crowded House. Hann rólaði víst uppi í tré í garði hér HINUM MEGIN VIÐ GÖTUNA í morgun. Þetta er bara í næsta hverfi við okkur, 10 mín. labb. Gott maður fór ekki þangað í morgungönguna í dag. Sorglegt samt auðvitað - maður með konu og börn. Fjölmiðlar hér eru rosalega óvægnir finnst mér. Þegar svona atburðir verða eru þeir alltaf að reyna að fá nánustu aðstandendur í viðtöl - og tekst það ótrúlega oft. Reyndar hefur nánasta fjölskylda Hester eðlilega ekki opnað á sér munninn við fjölmiðla í dag en í síðustu viku til dæmis, þá dóu þrjú systkini þegar kviknaði í bíl (2,3 og 4 ára) og tveimur dögum seinna voru foreldrarnir komnir í sjónvarpsviðtal - HALLÓ!

En aftur að páskahelginni okkar. Skírdagur var nú bara venjulegur vinnudagur hér. Við mæðgur skelltum okkur í verslunarferð í risastóra verslunarmiðstöð sem er hér nálægt. Húsið er svo stórt að við dunduðum okkur þarna inni næstum allan daginn, vorum bara að rölta um og skoða. Verð að deila með ykkur alveg frábærum hlut sem Ástralar hafa komist upp á lag með - "Parent room". Þessi herbergi finnur maður á öllum stærri samkomustöðum, verslunarmiðstöðvum, flugvöllum o.s.frv. Þar sem almenningsklósett eru á þessum stöðum er líka eitt stk. svona foreldraherbergi. Þetta er hugsað fyrir fólk með börn - allt frá fæðingu og þangað til þau eru farin að fara sjálf á klóið. Frábær skiptiaðstaða, bleiusjálfsali, örbylgjuofn og pelahitari. Konur með börn á brjósti geta farið inn í sérstök lokuð herbergi til að gefa brjóst (hér gerir maður ekki slíkt á almannafæri!) og svo eru klósett þar sem foreldrar geta farið inn með börnunum sínum - það eru bara stór herbergi með einu stóru klói og einu litlu. Svo eru vaskurinn og handþurrkan sett svolítið lægra svo þau stuttu geti þvegið sér. Mér finnst þetta alveg meiriháttar þjónusta - maður verður svolítið þreyttur á að flækjast með dömuna inni á básunum á venjulegu klósettunum.

Á föstudaginn langa vorum við bara heima í rólegheitum. Komum loksins skrifstofunni í sæmlegt horf. Þetta verður bara ágætis gestaherbergi þegar við verðum alveg búin - hver ætlar að koma fyrstur?

Á laugardeginum fórum við í heljarinnar bíltúr. Byrjuðum á að keyra suður á Mornington Peninsula, skaga hér suður af borginni þar sem vínrækt fer hvað mest vaxandi í heiminum. Við keyrðum um skagann og enduðum á að fara inn á jarðaberjabóndabæ þar sem við fengum að tína jarðaber sjálf - ummmm. Þarna eru reyndar líka ræktuð hindber, avokado og fl. og svo vinna þeir líka úr þessu alls kyns vörur, jarðaberjavín, sultur, ís o.s.frv. Enduðum svo á að fá okkur heljarinnar skammt af jarðaberjum með ís og rjóma - Geggjað!

Keyrðum síðan yfir í Phillip Island, eyju hér í flóanum sem Melbourne liggur í kringum. Eyjan er sérstaklega fræg fyrir "The Penguin Parade" en í ljósaskiptunum koma minnstu mörgæsir í heimi úr sjónum og upp á land þar sem þær sofa í holum í móanum upp af ströndinni. Við byrjuðum reyndar á að fara og skoða kóalabirni á verndarsvæði á eyjunni, sáum góðan slatta af björnum. Þeir eru alger krútt en ekki fjörugustu dýr í heimi. Rákumst reyndar líka á eina litla kengúru í garðinu, held samt að hún hafi bara verið i heimsókn! Um kvöldið fórum við svo og sáum mörgæsirnar, þetta er rosa business hér og mikið gert úr þessu enda um að ræða eina helstu túristasugu Ástralíu. Það er misjafnt hversu margar mörgæsir koma á land á hverju kvöldi og ég held að við höfum hitt á frekar slakt kvöld - en þarna töltu nú samt hátt í hundrað mörgæsir yfir sandinn á þeim klukkutíma sem þetta stóð yfir. Við klikkuðum nú aðeins á skónum hennar Thelmu - þarna var myrkur og bannað að vera með myndavélar og annað til að trufla ekki dýrin með flassinu - svo mættum við með barnið í skóm sem blikka þvílíku ljósashowi að það hálfa væri yfirdrifið! Nýju fínu blikkandi Barbieskórnir vöktu aðeins of mikla athygli - þegar verst lét vorum við vinsamlegast beðin um að halda á barninu!

Þetta var sem sagt laugardagsferðin okkar, löng og ströng en ofsalega skemmtileg. Vorum svo í góðri páskaleti hér í gær. Reyndum að komast í páskafíling með Kinderegg páskaeggjum með engum málsháttum en lítið gekk. Röltum upp í garðinn hér fyrir ofan og settumst á teppi á meðan Thelma lék sér á róluvellinum. Þarna var fullt af fólki, greinilegt að það voru ekki allir Ástralir í fjölskylduboðum á páskadag - eða réttara sagt - fjölskylduboðin fóru mörg hver fram í grasagarðinum.

Í dag, annan í páskum, fórum við svo aftur í stóru verslunarmiðstöðina sem við Thelma Kristín vorum í á fimmtudaginn. Tilgangurinn í dag var að kaupa hjól fyrir prinsessuna. Daman var alveg að tapa sér úr spenningi enda var draumahjólið þegar fundið, bleikt með dúkkusæti og tösku á stýrinu! Vonbrigðin urðu því mikil þegar búið var að selja öll 3 hjólin sem voru til þarna á skírdag og ekki hægt að redda nýju fyrr en í lok vikunnar. Við vorum komin á fremsta hlunn með að panta eitt slíkt en ákváðum að rölta einn hring í Kringlunni fyrst. Þar villtumst við inn í eina stórverslun, svona eins og K-Mart sem selur allt milli himins og jarðar. Haldið ekki að við höfum séð þetta fína hjól - alvöru fjólublátt BMX - og ekki minnkaði hamingjan þegar við litum á verðmiðann 59 dollarar í stað 139 fyrir hitt. (3000 kr. í stað 7000 kr.) Við ákváðum að skella okkur á gripinn og teygðum okkur upp í hillu til að sækja kassa og viti menn rottur og mýs - hjólið var á páskatilboði á litla 30 dollara 1500 KALL! þvílík kjarakaup hef ég sjaldan gert - hjálmurinn og hjálpardekkin voru miklu dýrari en hjólið! Og sú stutta er að rifna úr hamingju yfir gripnum. Við settum hann saman núna í kvöld og því liggur nokkuð ljóst fyrir hvað við mæðgur munum hafa fyrir stafni á morgun.

Þetta voru sem sagt páskarnir okkar í hnotskurn. Það er von á myndum af þessu öllu saman inn á www.transistor.tv/gallery á næstu dögum ef þið viljið kíkja.

Biðjum annars að heilsa heim í vorið á Íslandi. Heyrumst fljótlega
Kveðja
Unnur Gyða

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter