Melbourne

Saturday, November 26, 2005

Ferðaframhaldssaga, 2. kafli

7. nóvember

Stukkum á fætur um leið og sólin sendi geisla sína inn um þakgluggann á káetunni. Eftir morgunmat var fundur með Sunsail fólki þar sem farið var yfir siglingaleiðir o.þ.h. Að honum loknum var svo loks lagt upp í siglinguna miklu. Hófum ferðalagið á að sigla inn í stærsta bæinn á Raiatea og versla meiri mat - og áfengi ;o) sigldum svo frá Raiatea yfir til nágrannaeyjunnar Tahaa sem liggur í sama lóni. Lónin í kringum eyjarnar eru þannig upp byggð að brimgarðurinn liggur nokkuð utan við eyjarnar, ca. 500 - 1000 metra myndi ég giska á. Á milli eyjanna og brimgarðanna eru svo þessi tæru sægrænu lón sem geta verið allt niður í hálfan meter á dýpt og svo kölluð "motu" sem eru eyjar sem hafa myndast þar sem rifið kemur upp úr sjónum í útjaðri lónanna. Um þessi lón vorum við svo aðallega að sigla í ferðinni, sífellt tækifæri til að stökkva út í tæran sjóinn, snorkla, synda eða sigla á Tweety bátnum góða... eða Thelma Kristín sá um það ;o)

Tweety gerður klár


Lögðum við akkeri við Tahaa og stukkum í sjóinn. Thelma Kristín fékk að prófa Tweety bátinn í fyrsta sinn. Við höfðum keypt lítinn uppblásinn gúmmíbát hér heima fyrir brottför og hann kom sér vel í ferðinni. Þarna gat daman bara setið og við drógum hana með okkur þegar við vorum að synda eða snorkla. Sumir fóru á stóra gúmmíbátnum yfir á tvö motu sem lágu þarna rétt hjá en þar var allt merkt "private" og "keep out" - greinilega einhver kaupsýslukona búin að kaupa hlut í paradís. Þarna lágum við svo bara við akkeri í rólegheitum. Elduðum okkur mat og horfðum á sólarlagið... er hægt að biðja um meira?







Uppgefin eftir sundið í sjónum




8. nóvember

Sigldum langleiðina í kringum Tahaa. Vorum í smá vandræðum þar sem við höfðum planað kvöldverð á Hótel Hibiscus öðrum megin á eyjunni og skoðunarferð um eyjuna morguninn eftir sem lagði upp frá hinum endanum. Að auki var planið að sigla til eyjunnar Bora Bora að skoðunarferðinni lokinni og því best að hafa bátinn þar sem skoðunarferðin hófst því þar fyrir utan var leiðin út úr brimgarðinum. Okkur vantaði því í raun leigubíl til að flytja okkur frá einum stað til annars en slíkan munað er ekki að hafa á litlu Tahaa. Fórum í land í litlu þorpi til að taka vatn og eftir að hafa borið okkur nokkuð illa við eyjarskeggja var málinu reddað og ákveðið var að við skildum leggjast að akkeri við hinn enda eyjarinnar og yrðum sótt þangað um kvöldið.

Mæðgur á siglingu


Hófst því siglingin í kringum eyjuna með viðkomu á frábærum snorklstað sem lá við prívat motu. Vatnið var svo grunnt að maður synti ekki fyrir ofan fiskana heldur á meðal þeirra. Eini gallinn var sá að ef manni varð á í snorkl-messunni og þurfti að standa upp voru yfirgnæfandi líkur á að maður stæði á flugbeittum kóral eða stóru svörtu ígulkeri.. ekki þægilegt - en reynslan var þess virði. Syntum yfir að hóteli sem lá þarna á einka-motuinu og ætluðum að athuga hvort við fengjum ekki drykk á barnum. Ekki leist starfsfólkinu betur á okkur en svo að við fengum þær upplýsingar að barinn væri lokaður til klukkan 5 og allt upppantað á veitingastaðnum!! Hér var reyndar um að ræða þvílíka lúxus hótelið með flottum "overwater bungalows" og alls kyns afþreyingu. Fórum inn í lobbyið og spurðum hvað nóttin kostaði.. litlar 900 - 1250 bandaríkjadollara - kva, ekki málið! Ef þið viljið skella ykkur er linkurinn hér http://www.letahaa.com.





Eftir að hafa siglt á næturstað fórum við í land þar sem við vorum sótt á gömlum Landrover. Sátum þar aftan á á bekkjum á meðan ekið var þvert yfir eyjuna á Hótel Hibiscus, sem er meðal örfárra hótel og veitingastaða á eyjunni.

Þar var borið fram dýrindis hlaðborð með þjóðlegum réttum á meðan eyjaskeggjar sáu um tónlist og dans að hætti innfæddra. Ég kunni að mörgu leyti betur við þennan stað heldur en þegar við fórum á svipaðan viðburð á hótelinu okkar á Tahiti því hér var allt miklu minna í sniðum og meira local og hlýlegra. Greinilega bara fólkið í þorpinu að vinna sér inn smá pening. Börn hljómsveitarmeðlima hlupu um veröndina og unglingar úr þorpinu sáu um dansinn. Áhorfendur voru dregnir með á dansgólfið, enginn þó jafn oft og undirrituð sem fyrst var dregin fram ásamt annarri konu úr salnum, klædd í slæðu og látin dansa.. síðan í hópdans með öllum kvenkyns áhorfendum og að lokum vorum við hjónin dregin til hliðar og klædd í strápils með öllu tilheyrandi og sett út á gólf að dansa!!

Hljómsveitin


Dansararnir


Mahi Mahi - vinsæll fiskur


Uppáhaldið hennar Thelmu Kristínar, sætt brauðdeig sem bakað er í laufi af Hibiscus trénu


Thelma Kristín kunni líka að stela athyglinni eins og henni einni er lagið. Stóð til hliðar og hermdi eftir dönsurunum þar til allra augu voru farin að beinast að henni og stúlkurnar áttu orðið erfitt með að halda athyglinni því þær voru alltaf að líta á Thelmu Kristínu og brosa út í annað. Eftir að danssýningin var búin tók sú stutta sig til og hét einkadanssýningu við undirleik hljómsveitarinnar!!

Thelma Kristín í félagsskap danshópsins og kennara þeirra


Á því miður ekki mynd af okkur hjónum í stráskrúðanum, held að það sé bara til video á vélinni hjá tengó!

Veitingastaðurinn var veggfóðraður í hólf og gólf með hinum ýmsu þjóðfánum. Ekki fundum við nú íslenska fánann en síðasta verk okkar í ferðinni var að senda íslenskan fána á staðinn svo þegar þið heimsækið Hibiscus mun hann vonandi hanga þar í góðum félagsskap.

Vorum síðan keyrð aftur út í skútu á Landrovernum og drifum okkur í koju því brottför í skoðunarferð um Tahaa var bókuð klukkan átta morguninn eftir.

... framhald í næsta þætti.

1 Comments:

  • Hæ, æðislegt að lesa ferðasöguna. Þetta er þvílíka paradísin. Fékk alveg flash back að sjá water bungalow-in. Bíð spennt eftir fleiri myndum og ferðasögu. Ég er reyndar ekki búin að vera eins heppin, fór á spítala 4. nóv, var skorin 5. nóv við sprungum botnlanga, svo tóku við miklar sýkingar í kviðarholi, samfallin lungu og vökvi í þeim. Er því búin að liggja inni í meira en 3 vikur en vonandi er ekki nema ein eftir. 10 kg farin og allur máttur. En það næ ég að vinna upp (þ.e. máttinn, kg mega eiga sig!)
    Hafið það gott, knús frá mér :)

    By Anonymous Anonymous, at 11:03 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter