Melbourne

Friday, November 25, 2005

Ferðaframhaldssagan 1. kafli

Húff.. þá er maður dottinn aftur inn í rútínuna eftir meiriháttar ferðalag svo ekki sé meira sagt. Franska Polynesia var alger paradís á jörð og ekki spillti fyrir að ferðast um á skútu á stað þar sem sjórinn og sægrænu lónin eru það sem málið snýst um. Við gerðum svo margt skemmtilegt að ég held ég verði bara að láta skipulagða ferðasögu fylgja með því það er hætt við að þetta verði óskiljanlegur texti ef ég hætti mér út í almenna upptalningu á öllu því áhugaverða sem fyrir augu bar.

Hér verður því samin ferðadagbók, lofa því ekki að hún verði birt öll í einum rikk... líklega verður þetta bara framhaldssaga... vona að þið hafið þolinmæði til að lesa á enda!

4. nóvember 2005
Við lögðum af stað að heiman um miðjan morgun föstudaginn 4. nóvember. Vorum á sæmilegum tíma út á flugvöll en eftir langa biðröð og ótrúlegan vandræðagang hjá starfsfólkinu í innritun urðum við að hlaupa flugvöllinn endilangan, í orðsins fyllstu merkingu, til að ná vélinni. Það hafðist nú sem betur fer og við tók ágætis flug til Nýja Sjálands. Flugvélin var nú ekkert til að hrópa húrra fyrir enda er flug milli Ástralíu og Nýja Sjálands líklega stysta millilandaflugið sem Air New Zealand býður upp á og þeir eru ekkert að spreða nýja þotunum í það. Við vonuðum að þetta myndi batna í seinni vélinni en svo var þó ekki.. maður er orðinn svo góðu vanur á þessum löngu ferðalögum okkar að manni finnst orðið alveg ómögulegt að vera í vél þar sem ekki er privat sjónvarpsskjár og leikjatölva í sætinu fyrir framan :o)

Í 5 flugleggjum sem við flugum með félaginu var aðeins einu sinni boðið upp á dótapakka fyrir börnin. Ég man varla eftir því að hafa farið í innanlandsflug, hvað þá meira, þar sem Thelma Kristín fær ekki einhvern smá pakka í upphafi flugs. Að auki var einhver misskilningur með matarpöntunina okkar svo við vorum öll 3 skráð fyrir barnamat! Það leystist nú sem betur fer en þetta var samt í eina skiptið sem boðið var upp á barnamat yfir höfuð. Á bakaleiðinni toppuðu þeir svo stöðuna með því að sýna Kalla og sælgætisgerðina á sameiginlegu skjáunum sem voru fremst í hverju hólfi en eina fólkið í vélinni sem ekki sá á skjáinn voru börnin!!!



Jæja, þá er flugfélagagagnrýnin búin í bili og kominn tími til að einbeita sér að öllu því skemmtilega sem við tók. Eftir 6 tíma bið á flugvellinum í Aukland skelltum við dömunni bara í náttfötin (eins og við gerum alltaf í næturflugi) og hún svaf af sér það flug.. allt samkvæmt áætlun. Þar sem við flugum yfir daglínu tók 4. nóvember aftur við okkur á Tahiti, eldsnemma að morgni. Strax á flugvellinum tóku á móti okkur fagrar meyjar sem gáfu okkur blóm í hárið á meðan karlkyns eyjaskeggjar sáu um undirleik. Fórum á hótelið okkar sem var nýuppgert og flott og tókum okkur smá lúr áður en við röltum út á sundlaugaveitingastaðinn í hádegismat. Eftir smá sundsprett töltum við út í búð sem var þarna nálægt til að fjárfesta í kútum fyrir Thelmu Kristínu en hennar höfðu horfið úr skápnum hér heima fyrir brottför. Um kvöldið fórum við aftur á veitingastaðinn á hótelinu þar sem boðið var upp á hlaðborð með Polynesiskum réttum og þjóðlega dans og söng sýningu á meðan borðhaldi stóð.

Á leið í búðina, kannski við ættum að hafa kókoshnetur í matinn..


Thelma Kristín komin á barinn!!


Á veitingastaðnum


5. nóvember
Afskaplega léttur og þægilegur dagur þar sem við stungum ekki litlu tánni úr fyrir hótel-resortið. Morgunverðarhlaðborð á hótelveitingastaðnum áður en lagst var við sundlaugabakkann þar sem við lágum fram eftir degi. Ströndin var u.þ.b. 5 metra frá sundlauginni svo það var ekki langt að fara ef maður vildi breyta til. Hádegismaturinn pantaður á sundlaugarbarnum og eftir kokteil á barnum í eftirmiðdaginn var svo enn og aftur borðað á sama veitingastaðnum. Við urðum nú fyrir miklum vonbrigðum með kokteilhæfileika starfsmanna (sem m.a. voru "mahu", karlar sem haga sér, klæða sig, og eru í raun uppaldir sem konur - mjög sérstakt mannfræðilegt fyrirbrigði sem er frekar algengt í Suðurhöfum) en komust seinna í ferðinni að því að ástæðan fyrir vondum kokteilum var einfaldlega sú að polynesískt romm er nær ódrekkandi! En sem sagt, góður dagur, algert letilíf.... sjáið bara sjálf...








6. nóvember
Um leið og við vöknuðum drifum við okkur með leigubíl niður í bæ til að hitta ferðalangana frá Íslandi sem höfðu lent á Tahiti seint kvöldið áður. Það urðu auðvitað fagnaðarfundir þegar amma og afi komu hlaupandi, beint frá Hawaii með tilheyrandi blómahálsmen handa þeirri stuttu, sem hún hefur helst ekki tekið af sér eftir að við komum aftur heim. Settumst inn á kaffihús með Kristófer og Svanfríði, fengum okkur morgunmat og skiptumst á slúðri á meðan Kristján og Snorri fengu sér göngu um bæinn. Seinna um daginn leigðum við okkur svo stóran bíl með bílstjóra sem ók með okkur yfir á hinn hluta eyjarinnar þar sem Gauguin safnið stendur. Listmálarinn sá eyddi löngum stundum í Frönsku Polynesiu og málaði fagrar suðrænar konur.. og tók sér víst eina sjálfur eftir að hann skildi við dönsku frúna.





Á eftir settumst við inn á veitingastað sem bílstjórinn mælti með. Það var í boði dýrindis hlaðborð a la Tahiti, mikill fiskur, sérstaklega túnfiskur, ferskir ávextir og fleira góðgæti. Veitingastaðurinn stóð alveg í sjávarborðinu og þegar maður leit út um gluggann horfði maður beint niður á fiskana sem syntu um í sjónum.. og maður gat meira að segja fleygt afgöngunum fyrir borð og fiskarnir kepptust um að ná bitanum... bara eins og að gefa öndunum!



Bílstjórinn keyrði okkur síðan út á flugvöll þar sem við áttum bókað flug frá Tahiti yfir til eyjarinnar Raiatea þar sem skútan beið okkar. Starfsmaður Sunsail, skútuleigunnar, tók á móti okkur á Raiatea og fór með okkur í "beisið" þar sem báturinn beið. Hún gaf kapteini og áhöfn leiðbeiningar og ráð auk þess sem vistir voru bornar um borð. Þar sem við komum á sunnudegi og starfsemi í lágmarki óskaði hún eftir því að við gistum þarna í firðinum og færum ekki af stað fyrr en eftir frekara skraf og ráðagerðir daginn eftir.



Um kvöldið fórum við á veitingastað rétt ofan við "beisið".. ef veitingastað skyldi kalla. Í raun vorum við bara komin út á verönd hjá konu einni þarna í þorpinu, og uppkomnum syni hennar, sem greinilega gera út á að elda ofan í skútuleigjendur og aðra sem eiga leið þarna um. Það var auðvitað bara sjarmi yfir því að komast í eldhúsið hjá innfæddum og maturinn alveg prýðisgóður, túnfiskur í vanillusósu og ís og ferskir ávextir í desert.... alveg týpísk polynesísk matreiðsla.

Heldur var nú dýralífið mikið þarna á veröndinni fyrir minn smekk. Fyrir utan heimilisköttinn, sem í raun fór mest í taugarnar á manni - en lét okkur vera eftir að Kristján henti á hann bjórgusu, var þarna þó nokkuð um eðlur og köngulær svo ekki sé minnst á moskítóflugurnar sem eru alger plága á þessu svæði. Þarna var líka einn ræfilslegur geitungur sem tölti um gólfið og virtist eiga erfitt með flug. Maron var búinn að vara Thelmu Kristínu hundrað sinnum við honum en ekki fór nú betur en svo að daman ákvað að taka danspor .. ofan á flugunni sem auðvitað barðist fyrir lífi sínu og stakk Thelmu undir hælinn. Við vorum heppin að hafa hjúkku með í för og svo virtist heimilisfólkið líka vant svona uppákomum því húsfreyjan lét okkur hafa lime ávöxt og sagði okkur að leggja á sárið. Maron og Kristófer náði broddinum úr sárinu og hvort sem það voru ráð hjúkkunnar eða heimafólks sem réðu úrslitum þá varð aldrei nokkuð meira úr þessu biti, hvorki bólga, kláði né nokkuð annað.

Héldum svo "heim á leið" eftir þetta ævintýri og gistum í skútunni í fyrsta sinn. Þar fengu allir prívat káetur (þ.e. 2 manna káetur) með sér baði, bara eins og á bestu hótelum. Ég verð nú að viðurkenna að ég var með smá hnút í maganum yfir þessari fyrstu nótt þar sem ég hef eiginlega aldrei getað verið neðan þilja í bát án þess að verða hálfsjóveik. Þegar við komum í bátinn fyrr um daginn lá hann við bryggju og slengdist til og frá. Þá hugsaði ég nú með mér.. hvað í andsk.. er ég búin að koma mér í því mér leið ekkert vel í þessum hamagangi. En nú hafði skútan verið færð út á fjörðinn og ruggaði rólega við akkeri. Það var bara notarlegt að láta rugga sér í svefn og ekki bólaði á sjóveiki hjá nokkrum um borð.

Jæja... gott í bili.. framhald í næsta þætti!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter