Litla fjölskyldan saman á ný
Hélduð þið nokkuð að ég væri hætt að blogga?? Hef ekki gefið mér tíma til að setjast við tölvuna síðan húsbóndinn mætti á svæðið.... eða sem sagt... húsbóndinn yfirtók skristofuna!!
Maron kom sem sagt heim að morgni föstudags fyrir rúmri viku síðan. Þrátt fyrir lítinn svefn undanfarna daga fór hann með okkur mæðgum í skólann í "ready set go" prógrammið. Það verður aðra hverja viku núna fram að sumarfríi í janúar. Tókum laugardeginum frekar rólega, Thelma Kristín var auðvitað að farast úr spenningi að sýna pabba sínum hvað hún er orðin dugleg að hjóla svo við fórum í hjólatúr í eftirmiðdaginn. Fórum í bíltúr á sunnudeginum, ákváðum að elta sólargloppurnar sem sáust á himni og enduðum úti á ysta tanga Mornington skagans, keyrðum í raun meðfram Port Phillip flóa frá Melbourne (sem stendur við hann miðjan) og alveg út á enda.
Svo tók auðvitað bara venjuleg vika við... Maron fór í vinnu á mánudag og Thelma Kristín í dansinn. Ég fór svo í kínverskuna um kvöldið. Við Thelma Kristín fórum aðeinsí bæinn á þriðjudag og um kvöldið fórum við út að borða. Var svo að vinna á miðvikudag og föstudag á meðan daman var í leikskólanum. Susanna kom með krakkana í mat á föstudagskvöldið. Kim, maðurinn hennar er í vinnuferð .... þetta helst alveg í hendur... Maron kemur og Kim fer. Þetta er í þriðja sinn sem við borðum saman en aldrei höfum við verið öll fjögur fullorðna fólkið! Okkur er nú samt boðið í afmælismatarboð til þeirra í lok október og þá er von á fullri mætingu.
Talandi um afmæli. Vanessa vinkona varð 5 ára í dag og það var sko "dress up party" í bakgarðinum hjá þeim. Þrátt fyrir ákafar tilraunir var ekki hægt að sannfæra Thelmu Kristínu um að vera neitt annað en prinsessa.... líklega var ég ekki eina mamman í þessum sporum því fyrir utan eina Rauðhettu voru allar hinar stelpurnar í afmælinu prinsessur - surprise!!
Við Maron vorum fljót að nýta okkur ókeypis barnapössun og röltum inn í St. Kilda á meðan afmælinu stóð. Fengum okkur góðan hádegismat og röltum um listamarkaðinn. Vorum næstum búin að fjárfesta í málverki í stofuna hjá okkur. Draumurinn er nú ekki úti enn... ætli við kíkjum ekki aftur næsta sunnudag og kaupum mynd.
Daman skemmti sér auðvitað konunglega í afmælinu. Hér eru myndir af henni og vinkonunum þegar við komum að sækja hana.
Thelma Kristín og afmælisbarnið
Vanessa, Sophia, Thelma Kristín og einhver frænka sem fékk að vera með á myndinni
Fórum meira að segja í gær og keyptum okkur rúm! Ekki seinna vænna, búin að vera á leiðinni í 2 ár! Skildum rúmið okkar eftir í Svíþjóð svo við myndum nú örugglega láta verða af því að fá okkur nýtt þegar við kæmum til Ástralíu. Þegar hingað var komið ákváðum við að kaupa gestarúm í Ikea til að byrja með, á meðan við fyndum almennilegt rúm, og á gestabeddanum höfum við nú sofið í 7 mánuði!
Eitt gullkorn. Í gær vorum við að ræða við Thelmu Kristínu hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. "Ég ætla að verða tjaldari"! sagði sú stutta. "Hmm... hvað gera þeir?" spurðu foreldrarnir furðu lostnir. "Þeir labba upp að vatni og tjalda og svona" var svarið "svona eins og Óli og Halldór!!!" Það er sem sagt komið nýtt nafn á Flubba á þessari fjölskyldu - Tjaldarar!!!!
Ætla að láta staðar numið í bili. Hef í raun frá minna að segja núna þegar Maron er kominn... mér sem finnst alltaf svo rólegt hér þegar hann er í burtu en þá er ég miklu duglegri að finna upp á einhverju skemmtilegu að gera fyrir okkur Thelmu... svona til að láta tímann líða hraðar! Nú erum við bara að dúllast og njóta þess að vera til hér í 22 stiga hita og sól!
Maron var að elda handa okkur grjónagraut... sjáið bara hvað Thelma Kristín er dugleg að borða
Alveg sprungin!
... og getiði hver fékk að vaska upp!
Kossar og knús
Unnur Gyða
1 Comments:
Mér finnst þið lifa í ævintýri miðað við lífið sem við lifum hérna heima í kuldanum...enginn markaður til að fara á (nema þá Kolaportið), etc.
Frábært að sjá loksins myndir af ykkur, meira, meira, meira!
Þín var sárt saknað hjá Ingu Jónu á föstudaginn en við hugsuðum til ykkar (steinsofandi :))
By Anonymous, at 7:57 AM
Post a Comment
<< Home