Melbourne

Thursday, October 06, 2005

Rólegheit í Elwood og hryðjuverk á Bali

Úfff... fjórar vikur liðnar, von á húsbóndanum heim á morgun. Það verður fínt að geta talað við einhvern aftur sem fæddist á síðustu öld ;o)

Lífið hefur annars verið með rólegra móti eins og gengur í einsemdinni. Vann á dótasafninu á föstudaginn, það er ágætis leið til að hitta aðra foreldra í hverfinu. Fór svo í strípur um eftirmiðdaginn (ekki það að Thelma Kristín hafi tekið eftir því!) og var nokkuð sátt. Minni var meira að segja boðið í partý á laugardeginum í tilefni af eins árs afmæli hárgreiðslustofunnar... maður er bara orðinn vildarkúnni!

Fórum í hjólatúr niður á strönd á laugardaginn... eða Thelma Kristín fór sem sagt í hjólatúr. Ég skellti mér bara í skokkgallann og hljóp með, það fer mjög vel saman..... alveg þangað til sú stutta datt á bakaleiðinni og skrapaði götuna illilega. Hún lá blóðug eftir, með góða rispu á hjálminum og keðjulaust hjól með laust stýri! Við urðum því að hægja á ferðinni og röltum heim þar sem hægt var að plástra sárin. Ekki voru nú meiðslin alvarlegri en svo að þegar ég bauð göngutúr á videoleiguna vildi daman sko bara hjóla. Mamman lagaði því hjólið og við skelltum okkur á videoleiguna með viðkomu á pizzeríunni. Á meðan við biðum eftir pizzunni létum við aðeins sjá okkur í hárgreiðslustofupartýinu (pizzerian og hárgreiðslan er hlið við hlið) og héldum svo heim í laugardagsleti yfir sjónvarpinu.

Skelltum okkur í bæjarferð á sunnudaginn í rjómablíðu. Vorum voða menningarlegar og fórum á listasafnið. Þar var í gangi sirkussýning fyrir börn. Thelma Kristín fékk að klæða sig eins og trúður, æfa sig að húlla og gera alls kyns kúnstir - hún var ofsa lukkuleg með þetta. Á eftir keyptum við okkur samloku og settumst út í grasagarð með nestið okkar (best að nota tækifærið á meðan fjölskyldumeðlimir með heymæði eru fjarverandi) og enduðum svo á rólóvelli sem búið var að byggja á Federation Square sem var þannig gerður að alltaf þegar börnin gerðu eitthvað, t.d. róluðu eða veguðu, þá pumpuðu þau vatni sem rann í krókaleiðum eftir bambusstöngum og vökvaði að lokum blómabeð þar sem verið var að rækta baunir!!! Þetta er partur af einhverri listasýningu sem er í gangi um alla borg.

Dansinn er byrjaður aftur eftir 2 vikna hlé. Við fórum á mánudaginn og það var mikið fjör að vanda. Haldiði ekki að dömurnar séu byrjaðar að æfa dans við Barbie lagið ... nú syngur Thelma Kristín "Come on Babrie, let's go party" allan liðlangan daginn!!!!!!!!!!!!!!!!!
´
Eftir hádegið fórum við mæðgur svo bara í golf í góða veðrinu. Það var kominn tími til að prófa þennan golfvöll sem er hér við enda götunnar. Hann er alveg frábær fyrir svona byrjendur eins og mig. Suttar og beinar brautir. Kemur sér líka vel þegar Thelma Kristín er að spila með mér því hún hefur ekki þolinmæði til að labba mjög langar brautir en það heyrðist sko ekki kveinstafur frá minni.

Sátum svo í rólegheitum úti á svölum á þriðjudagsmorgun. Mundi svo eftir að stinga gemsanum í samband upp úr hádegi en hann lá dauður ofan í tösku. Þá biðu okkar skilaboð frá Josie og Vanessu um að þær væru ekkert að gera heldur og vildu gjarnan hitta okkur. Það var auðvitað auðsótt mál og þær kíktu til okkar um hálf þrjú leytið. Varla voru þær komnar inn þegar síminn hringdi og Susanna hin finnska spurði hvort við vildum hitta þau á róló. Maður er bara að verða vinsæll!! Við drógum auðvitað bara Vanessu og co út á róluvöll og krakkarnir léku sér heillengi á meðan mömmurnar slúðruðu.

Leikskóli hjá Thelmu Kristínu í gær og ég dúllaðist í matarinnkaupum og öðrum heimilisstörfum. Höfum verið á svipuðum nótum í dag enda stór dagur á morgun þegar pabbinn mætir á svæðið. Auk þess er "Ready, set, go" prógramm í skólanum svo það verður nóg að gera.

Annars er það helst í fréttum hér að Ástralinn er enn að reyna að jafna sig á sprengingunum á Bali. Þetta snertir þá mjög hér enda Ástralar fjórðungur ferðamanna á Bali. Fjórir dóu í þetta sinn (88 í sprenginunum fyrir 2 árum) og 15 eru svo alvarlega slasaðir að þeir hafa verið fluttir á sjúkrahús í Singapore og Darwin. Héðan hafa líka verði sendir læknar og lögreglumenn til að aðstoða Indónesana enda eiga þessi tvö lönd mjög náið samstarf á öllum stigum þjóðlífins. Ég verð samt að segja að líklega er þetta síðasti naglinn í líkkistu indónesískrar ferðaþjónustu. Eftir sprenginar 2003 datt ferðamannaiðnaðurinn eðlilega niður og hafði nú rétt náð helmingi þess sem hann var fyrir þær. Við þetta bætist að Ástralar hafa í auknum mæli sniðgengið Bali að undanförnu út af ungum Áströlum sem hafa verði teknir þar með eiturlyf og hlotið meðferð og refsingu sem ekki þykir við hæfi (sérstalega eitt mál sem hefur farið illa í landann þar sem ung stelpa var dæmd í 20 ára fangelsi fyrir að smygla 4 kg. af hassi inn til Bali (NB FRÁ Ástralíu TIL Bali - sem fjárhagslega meikar ekki sens!) og margt í málinu sem benti til þess að dópinu hefði verði komið fyrir í tösku stelpunnar af spilltum flugvallastarfsmönnum - en Indónesar taka það ekki sem sönnunargögn sem gerist ekki innan indónesískrar lögsögu) Alla veganna, með sprengingarnar 2003, þessi dópmál, sprengingu á ástralska sendiráðið í Jakarta í fyrra og nú aftur hryðjuverk.... það þarf mjög mikið til að Ástralar fari að streyma aftur til Bali. Auðvitað er fólk sem predikar um að þetta megi ekki bitna á heimamönnum á Bali, þeir hafi lífsviðurværi sitt af ferðamönnum.... en ég held að þrátt fyrir góðan vilja þá fari fólk bara ekki þangað með fjölskyldurnar sínar á næstunni. Ekki ég alla vega!

Úff, gæti skrifað fullt fullt meira um þetta Bali mál enda varla talað um annað hér. Ég ætla samt að hlífa ykkur í þetta sinn og fara að snúa mér að matargerð.

Bið að heilsa á Klakann
Knús
Unnur Gyða

2 Comments:

  • This comment has been removed by a blog administrator.

    By Anonymous Anonymous, at 5:47 PM  

  • This comment has been removed by a blog administrator.

    By Anonymous Anonymous, at 10:53 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter