Melbourne

Monday, June 25, 2007

Úr mannfræðiskápnum

Það er áhugavert fyrir mannfræðing að fylgjast með áströlskum fréttum þessa dagana. Hér var að koma út skýrsla sem dregur fram mjög svarta mynd af ástandinu meðal frumbyggja Ástralíu að því er varðar kynferðislega misnotkun á börnum. Ég hef nú ekki lesið skýrsluna en hún er víst hræðileg í alla staði og misnotkun mun almennari en áður var talið (og þótti nú ástandið slæmt fyrir). Ríkisstjórnin, í kosningaham, brást mjög fljótt og harkalega við og hefur nú tilkynnt að áfengi sé bannað í frumbyggjaþorpum í Norður Ástralíu, lögregluvakt verði stóraukin, félagslegar bætur verði bundnar því að börn sæki skóla og að börn frumbyggja verði skikkuð í læknisrannsókn þar sem athugað verði hvort að þau hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun.

Fyrst virtist sem þverpólitískt samþykki væri fyrir aðgerðunum - leiðtogi stjórnarandstöðunnar þóttist samþykkur og hvaðeina...en á undanförnum dögum hafa komið fram gagnrýnendur sem telja að hér sé um kynþáttafordóma að ræða og telja að stjórnvöld hefðu átt að hafa samráð við frumbyggjana áður en gripið var til aðgerða.

Ég tel ekki nokkurn vafa á því að hér sé um bullandi kynþáttafordóma og forræðishyggju að ræða - en eftir stendur hin áhugaverða mannfræðilega spurning; Hvort er ofar í forgangsröðinni; menningarleg afstæðishyggja (sem segir okkur að engin menning sé rétthærri en önnur - og skv. henni eigum við ekki að skipta okkur af - því okkar hugmyndir um "eðlilegt" samfélag eru ekkert rétthærri en hugmyndir annarra) - eða velferð barnanna í þessum þorpum?? Auðvitað hefði ekki hvarflað að nokkrum manni að banna áfengi í ákveðnu hverfi í Melbourne eða að skikka börn allra gyðinga í læknisrannsókn en í þessu tilfelli telur yfirvaldið sig hafa slíkt forræði. Ég hef ekkert svar við þessari spurningu - kasta þessu bara fram til ykkar til umræðu yfir góðum kaffibolla. Maður þyrfti helst að endurvekja sambandið við gömlu mannfræðigrúbbuna - þetta gæti alveg lyft góðu bjórkvöldi í hærri hæðir ;o)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter